Lífið

Kennsla samkvæmt námskrá í Bíó Paradís

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Oddný Sen mun fræða börn og unglinga í Bíói Paradís.
Oddný Sen mun fræða börn og unglinga í Bíói Paradís.
„Ég verð með námskeið fyrir alla grunnskóla landsins, fyrir börn og unglinga en þetta er í fyrsta skipti sem fræðsla samkvæmt aðalnámskrá grunnskólanna fer fram í kvikmyndahúsi,“ segir Oddný Sen, kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri í Bíói Paradís.

Tilgangur sýninganna er alhliða kvikmyndafræðsla og kvikmyndalestur. Börn og unglingar fá möguleika á að kynnast kvikmyndum sem hafa alþjóðlega gæðastimpla, eru klassískar perlur frá öllum skeiðum kvikmyndasögunnar, hafa skapað sér sess innan kvikmyndasögunnar og eru frá ýmsum þjóðlöndum.

„Ég fékk þessa hugmynd árið 2009, eftir hrunið,“ bætir Oddný við. Fræðslan er meðal annars styrkt af Reykjavíkurborg.

Á undan hverri sýningu er stuttur fyrirlestur til að auðvelda áhorfendum að greina kvikmyndina ásamt því að útskýra þá fræðilegu hugsun sem er á bak við hverja mynd.

Dæmi um myndir sem verða sýndar eru Fílamaðurinn eftir David Lynch, en hann er afmyndaður, settur í sirkus og það dæmdu hann allir fyrirfram. Horft er á þá mynd með tilliti til eineltis og lífsleikni. Einnig verður horft á heimildarmynd um femínísku pönkhljómsveitina Pussy Riot með tilliti til mannréttinda, ritskoðunar og félagslegrar samstöðu.

Erfitt verður að koma öllum nemum grunnskólana að. „Fyrstur kemur fyrstur fær, það komast auðvitað ekki allir að en ég vonast til að geta boðið upp á ferðir frá landsbyggðinni.“ bætir Oddný við.

Á næstunni mun einnig hefjast fræðsla fyrir framhaldsskóla og leikskóla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×