Lífið

Keppir um að hanna bol fyrir sænska tískurisann H&M

Auður Ýr Elísabetardóttir.
Auður Ýr Elísabetardóttir.
Auður Ýr Elísarbetardóttir er þátttakandi í hönnunarsamkeppni á vegum tískurisans H&M í Bandaríkjunum og var lengi í baráttunni um efsta sætið.

Auður Ýr flutti út til San Francisco til þess að leggja stund á nám í myndskreytingum. Hún heyrði af samkeppninni í gegnum skólann sinn. „Samkeppnin var auglýst í gegnum skólann sem ég er að fara í í haust og ég ákvað að taka þátt því þetta yrði frábær kynning fyrir mig ef ég mundi vinna," útskýrir Auður Ýr.

Hún hefur búið í Bandaríkjunum síðan í september ásamt eiginmanni sínum Marinó Sigurðssyni, en til gamans má geta þess að hann og tvíburabróðir hans léku Bamm Bamm í kvikmyndinni um Flintstones.

Mynd Auðar.
Auður Ýr sat lengi í öðru sæti keppninnar, sem er vinsældakosning, en undanfarið hafa aðrir keppendur tekið fram úr henni og nú er hún í áttunda sæti. Sigurmyndin verður prentuð á stuttermaboli sem seldir verða um öll Bandaríkin en að auki hlýtur sigurvegarinn peningaverðlaun og fataúttekt í verslunum H&M að andvirði 60.000 krónur.

„Verkið verður einnig sýnt í gluggum verslunarinnar þannig þetta eru mjög vegleg verðlaun. Svo væri ekki leiðinlegt að fá úttektina heldur og geta keypt sér föt án þess að fá samviskubit," segir Auður og hlær.

Það eru ekki aðeins Bandaríkjamenn sem geta tekið þátt í netkosningunni og því geta Íslendingar lagt Auði lið í keppninni með því að heimsækja slóðina yourarthere.com/entry/perla. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.