Skoðun

Kína, Indland og Rússland?

Baldur Þórhallsson skrifar
Öll ríki verða að eiga sér bandamenn til að geta blómstrað og varið hagsmuni sína í alþjóðasamfélaginu. Lítil ríki þurfa enn meir á bandamönnum að halda en þau stærri. Í raun eru smáríki upp á þau stærri komin. Þau þurfa á skjóli þeirra að halda í efnahagslegu og pólitísku umróti alþjóðakerfisins.

Samskipti ríkja byggjast ekki á góðvildinni einni saman. Til að hægt sé að treysta á bandalagsríki er ekki nægjanlegt að byggja á sameiginlegum menningararfi eða fornu samstarfi. Samvinna ríkja þarf að byggjast á gagnkvæmum hagsmunum. 

Best er fyrir smáríki að formbinda samskipti sín við stærri ríki innan alþjóðastofnana. Þannig má koma í veg fyrir að stóru fiskarnir éti þá smærri.

Alla 20. öldina var Ísland í skjóli ríkja sem gátu látið til sín taka í alþjóðasamfélaginu. Með formlegum hætti bundumst við þessum nágrönnum okkar tryggðaböndum. Danir sáu um framkvæmd utanríkisstefnu landsins til 1940. Þá tók við skjól Breta og síðan Bandaríkjamanna. Bandaríska skjólið tryggði ekki einungis efnahagslega uppbyggingu heldur styrkti stöðu okkur á alþjóðavettvangi. Þorskastríðin eru besta dæmið um það. Í dag er bandaríska skjólið einungis hernaðarlegs eðlis. Fyrir utan alþjóðlegan stuðning hafði danska, breska og bandaríska skjólið umdeild en umtalsverð áhrif á okkar fámenna samfélag. Hverjir eru bandamenn okkar í dag? Hvaða bandamenn áttu íslensk stjórnvöld þegar þau bresku beittu hryðjuverkalögunum? Hvaða bandamenn áttum við innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar við þurftum á neyðaraðstoð að halda? Getur verið að íslensk stjórnvöld hafi brugðist því hlutverki sínu að tryggja landinu öfluga bandamenn sem koma til aðstoðar þegar á reynir?



Nú er horft til stjórnvalda í Kína, Indlandi og Rússlandi. Gott er að auka viðskipti við þessi ríki en sú spurning hlýtur að vakna hvort samskiptin við þau geti orðið kjölfestan í íslenskri utanríkisstefnu. Eru þetta okkar nýju bandalagsríki? Er raunhæft að þessi ríki verði okkar vinveittustu nágrannar á 21. öldinni? Eru þetta þau stjórnvöld sem við viljum tengjast tryggðaböndum?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×