Viðskipti innlent

Kínverjar hafa áhuga á íslenska fasteignamarkaðnum

HJH skrifar
Framkvæmdastjóri Félags fasteignasala segir hóp kínverskra embættismanna á leið til landsins en hann hefur lýst yfir áhuga sínum á íslenska fasteignamarkaðinum. Umhugsunarverðar upplýsingar, segir innanríkisráðherra.

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, hefur verið beðinn um að taka á móti hópi Kínverja í því skyni að fræða þá um íslenskan fasteignamarkað og þær reglur sem á honum gilda.

„Og eins að ræða þá við fasteignarsölu um svona ýmis kauptækifæri og annað á fasteignum á landinu. Þeir óskuðu einnig eftir því að það kæmi boð frá Félagi fasteignasala um að þeir kæmu til landsins en ég hafnaði því en sagði að sjálfsögðu að þeir væru velkomnir að koma og ég myndi taka á móti hópnum og fræða þá um fasteignaviðskipti."

Kínverjarnir eru 10 talsins og tengjast stjórnvöldum þar ytra. „Það var kominn ákveðinn listi yfir þá sem væru að koma og þetta voru ýmsir sem tengdust ráðuneytum og öðru þarna í Kína." Hann segir að þetta sé í fyrsta sinn sem fyrirspurn af þessu tagi komi frá útlendum yfirvöldum. Hann segist ekki vita hvað hópurinn hefur í hyggju né hvort um fjárfesta ræðir.

„Hefurðu áhyggjur af þessu? Það er kannski erfitt að segja áhyggjur eða ekki?"

„Svona viðskiptahættir hafa oft átt sér stað, en þá er fólk bara að kaupa smærri eignir og þannig hefur yfirleitt verið veitt samþykki. En þarna erum við að tala um eitthvað allt allt annað en nokkru sinni áður hefur þekkst. Þetta er svo gríðarlegt landflæmi að það er náttúrulega stór vandi þarna á ferð og það verður bara að taka ákvörðun um það."

Grétar hefur gert utanríkisráðuneytinu og Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra viðvart. Að sögn Ögmundar verður ekki tekið á þessu máli nema að Kínverjarnir ráðist í einhver kaup.

„Og þá verða þeir að sækja undanþágu til okkar, og það er þá fyrst sem málið kemur til formlegrar afgreiðslu að okkar hálfu. Það breytir því ekki að þetta eru umhugsunarverðar upplýsingar"

Ögmundur segir aukinn áhuga Kínverja á fjárfestingum hér á landi ekki valda sér áhyggjum.

„Það vekur vissulega upp ýmsar spurningar og áhugavert að fylgjast með því sem er að gerast."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×