Innlent

Kínverski auðjöfurinn ætlar að fjárfesta fyrir 10-20 milljarða

Ákvörðun kínversks auðjöfurs að byggja upp lúxushótel á Grímsstöðum á Fjöllum og í Reykjavík, fyrir tíu til tuttugu milljarða króna, er langstærsta fjárfesting af þessu tagi í ferðaþjónustu á Íslandi.

Þetta er Huang Nubo, maðurinn sem verður einn stærsti landeigandi á Íslandi, fallist stjórnvöld á kaup hans á þremur fjórðu hluta jarðarinnar Grímsstaða. Áhuga hans á Íslandi má rekja til Hjörleifs Sveinbjörnssonar þegar þeir voru ungir námsmenn í Peking-háskóla.

„Við vorum saman í námi fyrir um þrjátíu árum síðan. Hann varð svo athafnamaður á Íslandi," segir Hjörleifur.

Sem stjórnarformaður félagsins ZhongKun í Peking er Nubo orðinn umsvifamikill í ferðaþjónustu, ekki aðeins í Kína heldur einnig í Bandaríkjunum og Japan.

„Hann sér fyrir sér að Ísland verði næsta ferðamannaparadís heimsins en þarna er verið að tala um tíu til tuttugu milljarða fjárfestingu," segir Hjörleifur.

Þegar horft er á landakortið skilst hversvegna slíkur maður sjái tækifæri á Grímsstöðum á Fjöllum, sem liggur vel við náttúruundrum eins og Mývatni, Dettifossi, Ásbyrgi, Herðubreið, Öskju og Kverkfjöllum.

Á næstu þremur til fjórum árum hyggst hann byggja upp 120 herbergja lúxushótel á Grímsstöðum, golfvöll og hestabúgarð og í Reykjavík tvöfalt stærra lúxushótel. Þá er hann að spá í flugfélag til að flytja fólk á milli hótelanna. Þetta á að verða heilsársrekstur.

Hjörleifur telur að uppbyggingin muni hafa jákvæð áhrif, ekki síst norðaustanlands.

„Þetta er metnaðarfull ferðamennska, og hún er græn auk þess sem þetta skilar miklum peningum til landsins," segir Hjörleifur.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri fagnar þessum áformum, segir þau stórtíðindi, og segir að viðlíka fjárfesting á þessu sviði ferðaþjónustunnar á Íslandi sé óþekkt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×