Innlent

Kjarnorkuver í Vestmannaeyjum

Áform voru uppi um að reisa kjarnorkuver í Vestmannaeyjum um miðja síðustu öld. General Electric gerði Rafmagnsveitum ríkisins tilboð í kjarnorkuver árið 1958.

Fjallað er um fyrirætlanir General Electric í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar segir Lárus M.K. Ólafsson, lögfræðingur sem vann hjá Orkustofnun, að áformin séu orðin að innanhússbrandara hjá fyrirtækinu.

„Það var alltaf verið að leita að hentugri og ódýrri lausn til að mæta þessum jaðarkjörnum eða landshlutum sem vantaði rafmagn og hita. Einhvern veginn kom það til að íslensk stjórnvöld fengu tilboð frá General Electric, sem var að markaðssetja lítil sæt kjarnorkuver hér og þar, meðal annars í Skandinavíu," segir Lárus í viðtalinu við Morgunblaðið.

Lárus segir málið hafa verið skoðað af fullri alvöru á sínum tíma. Kjarnorkuver hefði því vel getað risið í Eyjum.

„Það átti að vera ódýr lausn til að skipta út jarðefnaeldsneyti. Gefnar voru út þrjár skýrslur um málið, allar árið 1959. Það var gerð hagkvæmniúttekt, lýsing á verkefninu og síðan var einangrað hvar væri heppilegast að koma því fyrir. En síðan dagaði það upp," segir Lárus í viðtalinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×