Innlent

Klipptu á borðann í snjóbyl | Myndir

Mikill fjöldi heimamanna var við áningarstaðinn í Hófaskarði þegar ráðherra og vegamálastjóri opnuðu vegina formlega með borðaklippingu, Mynd/Vegagerðin
Mikill fjöldi heimamanna var við áningarstaðinn í Hófaskarði þegar ráðherra og vegamálastjóri opnuðu vegina formlega með borðaklippingu, Mynd/Vegagerðin
Þáttaskil urðu í samgöngumálum Norðausturlands í dag þegar Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ásamt Hreini Haraldssyni, vegamálastjóra, opnaði formlega Hófaskarðsleið og Raufarhafnarveg.

Þessi vegaframkvæmd fólst í því að tengja saman Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn með góðum heilsársvegi með bundnu slitlagi og koma þessum byggðum í betra vegasamband við aðra landshluta. Lagðir voru samtals 53,3 km langir stofnvegir, 38,9 km yfir Hólaheiði og Hófaskarð og 14,4 km löng tenging til Raufarhafnar. Er þetta lengsti vegarkafli með bundnu slitlagi sem tekin er í notkun í einu á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Mikill fjöldi heimamanna var við áningarstaðinn í Hófaskarði þegar ráðherra og vegamálastjóri opnuðu vegina formlega með borðaklippingu svo sem hefð er fyrir.

Í máli vegamálastjóra kom fram ánægja með vel unnið verk og mikilvægi þess fyrir byggðarlögin og íbúa þeirra. Hann sagði að verkefnum af þessari stærðargráðu færi fækkandi, sérstaklega næstu ár í núverandi ástandi, en einnig vegna þess að mörgum stórum verkum væri lokið.

Samgönguráðherra sem að undanförnu hefur vígt fjögur stór verkefni í vegagerð, Bolungarvíkurgöng, Héðinsfjarðargöng, Lyngdalsheiðarveg og nú Hófaskarðsleið/Raufarhafnarveg, sagði að hann hefði öðlast nýja sýn á samgöngumál. Mikilvægi vegabóta fyrir íbúa viðkomandi svæðaværu miklum mun mikilvægari en hann hafði gert sér grein fyrir, og ótrúleg sú gleði og bjartsýni sem lesa mætti úr orðum og fasi sveitarstjórnarfólks og íbúa þeirra byggða sem næst þessum framkvæmdum liggja. Rímaði það við þau orð hans við opnun Lyngdalsheiðar að í raun væri Vegagerðin menningarstofnun sem í raun hefði ótrúleg áhrif á þróun byggða og velferð fólksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×