Innlent

Kom ánægjulega á óvart að ráðherra skartaði regnbogatreflinum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Formaður Samtakanna ´78 er ánægð með að Illugi hafi notað regnbogatrefilinn við opnunarhátíð Vetrarólympíuleikanna í Sotsjí.
Formaður Samtakanna ´78 er ánægð með að Illugi hafi notað regnbogatrefilinn við opnunarhátíð Vetrarólympíuleikanna í Sotsjí.
„Við hefðum viljað sjá pólitíska fulltrúa Íslands á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí senda skýrari skilaboð til rússneskra stjórnvalda, almennings og ekki síst hinsegin fólks þar í landi en bara þau að menntamálaráðherra hafi verið með regnbogatrefilinn sem kom reyndar mjög ánægjulega á óvart,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna ´78.

„Ég tala nú ekki um þegar forsetinn hefur rætt við fjölmarga og meðal annars hitt Pútín í eitt skipti,“ segir hún.

Fulltrúar Samtakanna ´78 og Hinsegin daga afhentu Illuga Gunnarssyni, mennta og menningarmálaráðherra kveðjugjöf fyrir för hans á leikana og var trefilinn hluti hennar.

Illugi sagði áður en hann fór að fengi hann tækifæri til myndi hann að sjálfsögðu koma sjónarmiðum sínum á framfæri og lýsa afstöðu sinni til þeirra mannréttindabrota sem sannarlega eru stunduð í Rússlandi.

Fréttastofa hefur gert ítrekaðar tilraunir til þess að ná tali af Illuga og fá fréttir af því hvort hann hafi fengið frekari tækifæri til að lýsa yfir afstöðu sinni. Hann hefur hvorki svarað símtölum né skilaboðum og þá segjast aðstoðarmenn Illuga sjálfir eiga erfitt með að ná í ráðherrann. 

Fréttastofa sendi forseta Íslands fyrirspurn fyrir stuttu og bíður svara. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×