Innlent

Komu í heiminn 11.11.11 um 11-leytið og voru 11 merkur

Snáðarnir, sem eru fyrstu börn foreldra sinna, fá að fara heim af Landspítalanum í dag. fréttablaðið stefán
Snáðarnir, sem eru fyrstu börn foreldra sinna, fá að fara heim af Landspítalanum í dag. fréttablaðið stefán
Það var ekki vegna dagsetningarinnar sem Anna Sigríður Pálsdóttir, sem gekk með tvíbura, var sett af stað hinn 11. nóvember síðastliðinn. „Ég valdi fyrsta lausa tímann fyrir gangsetningu og hann reyndist vera þennan dag, en ég var komin 37 vikur á leið,“ segir Anna og bætir því við að talan 11 hafi komið nokkrum sinnum við sögu daginn sem strákarnir hennar komu í heiminn.

„Sá fyrri var ellefta barnið sem fæddist á Landspítalanum þennan dag. Hann fæddist 15 mínútum fyrir 11 um kvöldið en hinn um klukkan 11. Þyngd beggja við fæðingu var rétt tæpar 11 merkur. Þetta er auðvitað svolítið sérstakt og enn skemmtilegra er að þeir eignuðust frænku sama dag.“

Snáðinn sem kom fyrr í heiminn átti fyrst í svolítilli baráttu, að því er Anna greinir frá. „Hann útskrifaðist af vökudeild í gær og er í fínu lagi núna. Við fáum öll að fara heim í dag.“

Að sögn Önnu vissi hún að hún gekk með stráka og hún hefur þess vegna, ásamt föður þeirra, Jóni Ara Arasyni, haft nægan tíma til þess að huga að því hvaða nöfn eigi að gefa þeim. „Þau verða samt ekki opinberuð fyrr en þeir allra nánustu hafa fengið að vita þau.“- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×