Innlent

Kona liggur á gjörgæsludeild eftir eldsvoða í Borgarnesi

Kona slasaðist alvarlega og liggur nú á gjörgæsludeild Landsspítalans eftir að eldur kviknaði í þrílyftu íbúðarhúsi í Borgarnesi í nótt.

Konan stökk út um glugga á annarri hæð hússins og kom illa niður. Þegar var búið um hana í sjúkrabíl , sem lagði af stað til Reykjavíkur, en áður hafði verið kallað eftir þyrlu Gæslunnar og mættust þyrlan og sjúkralbíllinn við Hvalfjarðargöng, þar sem konan var tekin um borð í þyrluna, sem flutti hana á Landsspítalann í Fossvogi.

Þar liggur hún á gjörgæsludeild, og hafa ekki fengist nánari fregnir af líðan hennar. Þegar slökkviliðið kom á vettvang, logaði út úr báðum mænum hússins, sem er úr timbri og eitt elsta hús í Borgarnesi. Aðrir íbúar hússins höfðu þá komist slysalaust út.

Slökkvistarf gekk vel, en húsið er stór skemmt. Lögregla rannsakar nú eldsupptök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×