Innlent

Könnun MMR: 70 prósent vilja bylta kvótakerfinu

MYND/Hari
Ný könnun MMR á afstöðu almennings til ráðstöfunar fiskveiðiheimilda bendir til þess að nokkur stuðningur sé við hugmyndir sem halla í þá átt að ríkið afturkalli fiskveiðiheimildir, fari sjálft með eignarhald eða innheimti leigu fyrir afnotarétt sem endurspegli markaðsverðmæti kvótans.

„Þannig voru 69,7% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðu að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að greiða leigu til ríkisins sem endurspeglar markaðsverðmæti kvótans, 66,6% sögðust því hlynnt að kvótinn ætti að vera í eigu ríkisins og 64,9% sögðu að stjórnvöld ættu að afturkalla gildandi kvóta og úthluta að nýju með breyttum reglum," segir í tilkynningu frá MMR.

„Þá kváðust 17,4% þeirra sem tóku afstöðu vera hlynnt því að handhafar kvóta greiddu eingöngu leigu fyrir afnotin sem næmi rekstrarkostnaði þeirra ríkisstofnana sem þjónusta sjávarútgerðina, 15,1% töldu að núverandi handhafar kvótans ættu að fá að halda honum áfram óskertum og 7,4% sögðust hlynnt því að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að fá að ráðstafa honum að vild, þar með talið selja, leigja og veðsetja," segir ennfremur auk þess sem 31,4% þeirra sem tóku afstöðu sögðust vera sammála því að hagsmunir núverandi handhafa kvótans og þjóðarinnar í heild væru sameiginlegir.



Afstaðan ólík á milli flokka

„Nokkur munur reyndist á afstöðu svarenda til ráðstöfunar fiskveiðiheimilda eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka," segir einnig í tilkynningunni. „Til að mynda voru 89% Samfylkingarfólks og 93% Vinstri grænna hlynnt því að stjórnvöld afturkölluðu gildandi fiskveiðiheimildir og úthlutuðu þeim að nýju með breyttum reglum, samanborið við 36% Sjálfstæðismanna."

Stuðningur við að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að fá að ráðstafa honum að vild reyndist aftur á móti lítill meðal stuðningsmanna allra flokka. „En 16% Sjálfstæðismanna, 10% Framsóknarmanna, 4% Samfylkingarfólks og enginn Vinstri grænna sögðust hlynntir því að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að fá að ráðstafa honum að vild, þar með talið selja, leigja og veðsetja."

Hér má kynna sér könnunina betur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×