Innlent

Kosið til stjórnlagaþings 27. nóvember

Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, hefur að höfðu samráði við stjórnlaganefnd og Rögnu Árnadóttur, dómsmála- og mannréttindaráðherra, ákveðið að kjördagur til stjórnlagaþings verði laugardaginn 27. nóvember næstkomandi. Hlutverk stjórnlagaþings er að endurskoða stjórnarskrá Íslands.

Stjórnlagaþingið skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúa sem kosnir skulu persónukosningu og er landið eitt kjördæmi við þessa kosningu. Framboðsfrestur fyrir stjórnlagaþingskosningar rennur út 18. október 2010.

Þá hefur stjórnlaganefnd sem kjörin var af Alþingi í júní ákveðið að þjóðfundur um stjórnarskrá verði haldinn helgina 6.-7. nóvember 2010. Fundurinn er undanfari stjórnlagaþings.

Fulltrúar valdir með slembiúrtaki

Þjóðfundurinn verður skipaður um 1000 fulltrúum, völdum með slembiúrtaki úr þjóðskrá þar sem gætt er að eðlilegri skiptingu þátttakenda af landinu öllu og að kynjaskipting sé sem jöfnust. Á þjóðfundinum verður kallað eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni.

Þjóðfundur um stjórnarskrá er liður í endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins. Stjórnlaganefnd skal vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman í febrúar 2011. Nefndin mun jafnframt annast söfnun og úrvinnslu gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi. Þá mun hún leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá.

Stuðla að virkri umræðu um stjórnskipan landsins

Um næstu mánaðamót mun stjórnlaganefnd senda út boðun til þjóðfundarins. Jafnframt verður opnuð heimasíða þar sem nánari upplýsingar um fyrirkomulag og efni fundarins verða kynnt. Einnig verða á heimasíðunni margs konar upplýsingar um stjórnarskrármálefni sem ætlað er að stuðla að virkri umræðu um stjórnskipan Íslands.

Í stjórnlaganefnd sitja Guðrún Pétursdóttir, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Ágúst Þór Árnason, Björg Thorarensen, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Njörður P. Njarðvík og Skúli Magnússon.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×