Innlent

Krafa 50 þúsund Íslendinga gæti kostað yfir 30 milljarða

Ross Beaty, eigandi Magma Energy. Fyrirtækið er nú langstærsti hluthafi HS orku.
Ross Beaty, eigandi Magma Energy. Fyrirtækið er nú langstærsti hluthafi HS orku. Mynd/GVA
Tæplega 50 þúsund manns skora á stjórnvöld að tryggja ríkinu eignarhald á orkuauðlindum landsins. Ef ríkið tekur HS Orku eignarnámi má telja að greiða þurfi Magma 33 milljarða í bætur.

Tæplega 50 þúsund manns hafa nú áritað áskorun til stjórnvalda um að koma í veg fyrir söluna á HS Orku og skora jafnframt á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra.

Magma Energy er nú langstærsti hluthafi HS orku með 98,53% hlut en aðrir hluthafar í félaginu eru sveitarfélögin Garður, Grindavík, Reykjanesbær og Vogar - með samanlagt 1,47% hlut.

Magma Energy keypti hlut sinn í HS Orku af ýmsum aðilum en heildarfjárfesting Magma nemur 31 milljarði króna. Þá var hlutafé aukið um rúma tvo milljarða en HS Orka hefur ekki greitt arð eftir að Magma Energy eignaðist meirihluta í félaginu.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur áður greint frá því að til að verða við kröfum þeirra sem skrifað hafa undir áskorun til stjórnvalda um að ríkið tryggi sér eignarhald á HS Orku verði að beita eignarnámi eða semja við Magma Energy um kaupin en samkvæmt stjórnarskránni verður fullt verð að koma fyrir eignarnám.

Matsnefnd eignarnámsbóta metur verðið sem greiða þarf í bætur fyrir eignarnám en samkvæmt heimildum fréttastofu þyrfti nefndin að líta til heildarfjárfestingu Magma í HS Orku sem nú nemur rúmum 33 milljörðum króna. Þá þyrfti einnig að taka tillit annarra þátta en bótaskylda ríkisins yrði því að lágmarki 33 milljarðar króna, en til samanburðar má líta til þess að niðurskurður hjá öllum ráðuneytum í fjárlögum var samtals rúmir 27 milljarðar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×