Innlent

Krafa um bónusgreiðslur eins og blaut tuska framan í þjóðina

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Eiríkur Jónsson segir LSR gera athugasemdir við bónusgreiðslur af þessu tagi. Mynd/ Anton Brink.
Eiríkur Jónsson segir LSR gera athugasemdir við bónusgreiðslur af þessu tagi. Mynd/ Anton Brink.
Að tala um bónusgreiðslur sem telja í milljörðum er eins og blaut tuska framan í þjóðina, segir formaður LSR um áætlun um milljarða bónusgreiðslur til starfsmanna Straums. Það eigi að semja um laun sem séu samboðin fólkinu í landinu og gera þá kröfu til starfsmannanna eins og annarra vinnandi manna að skila sinni vinnu fyrir þau laun.

Stjórnendur bankans héldu kynningarfund með kröfuhöfum bankans þann 6. ágúst sl. Á þeim fundi var rekstraráætlun kynnt en í henni var að finna áætlun um að starfsmenn Straums fái bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans á næstu fimm árum. Bónusgreiðslurnar eru frá 2,7 milljörðum og upp í tæpa 10 milljarða. Lífeyrissjóðir eiga 24 milljarða króna kröfu á bankann. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er sjá sjóður sem á hvað mestum hagsmunum að gæta.

Eiríkur Jónsson, formaður LSR, segir sjóðinn ítrekað hafa gert athugasemdir við svona bónusgreiðslur og kaupréttasamninga í fyrirtækjum sem sjóðurinn hefur fjárfest í.

Óttar Pálsson, forstjóri Straums, sagði í samtali við fréttastofu að um áætlun á árangurstengdum greiðslum sé að ræða og þær kæmu fyrst til umræðu nýrrar stjórnar að lokinni endurskipulagningu félagsins sem nú stendur yfir.

Stjórn LSR mun koma saman í næstu viku þar sem málið verður rætt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×