Erlent

Kraftaverk á fæðingardeild

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lítið barn sem spjarar sig. Mynd/ afp.
Lítið barn sem spjarar sig. Mynd/ afp.
Það má segja að lítið kraftaverk hafi gerst í Þýskalandi í vetur þegar lítil stelpa fæddist eftir aðeins 22 vikna meðgöngu. Hún vóg aðeins 460 grömm. Nú, fimm mánuðum seinna, er litla stelpan farin að spjara sig.

Fríða litla, eins og stelpan er kölluð, var agnarsmá við fæðingu. Hún var einungis 28 sentimetrar að lengd þegar hún kom í heiminn þann 7. nóvember í Fulda í vesturhluta Þýskalands. Fram kemur í dagblaðinu Bild að aldrei hafi barn fæðst eftir jafn skamma meðgöngu og lifað af eins og í tilfelli Fríðu litlu.

Í dag er Fríða orðin fimm og hálfs mánaða. Hún vegur nú 3,5 kíló og er 50 sentimetra löng. Dagblaðið Bild segir að Fríða útskrifist af spítala eftir nokkra daga og fái þá að fara heim til fjölskyldu sinnar. Fríða átti tvíburabróður en hann lést einungis fáeinum dögum eftir fæðinguna. Reinald Repp, sérfræðingur í fæðingarlækningum, segir í samtali við Bild að það sé kraftaverk að stelpan skuli hafa lifað af. Hann segir að fóstur séu ekki komin með fullþroskuð hjörtu, lungu og heila eftir 22 vikna meðgöngu. Hann segir að Fríða hafi andað með aðstoð öndunarvélar fyrstu mánuðina og fékk næringu í gegnum naflann.

Börn sem fæðast áður en átta mánuðir eru liðnir af meðgöngunni teljast vera fyrirburar. Börn sem fæðast áður en 32 vikur eru liðnar, eru talin eiga hættu á að fá alls kyns þroskaraskanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×