Innlent

Kristján vill ekki 800 milljóna króna bústað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristján Júlíusson segir að ekki hefði verið þörf á að kaupa sendiráðsbústað fyrir 835 milljónir. Mynd/ Pjetur.
Kristján Júlíusson segir að ekki hefði verið þörf á að kaupa sendiráðsbústað fyrir 835 milljónir. Mynd/ Pjetur.
Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis, gagnrýnir að ríkið hafi keypt sendiráðsbústað fyrir 835 milljónir króna í Lundúnum. Fjárlaganefnd hittist á fundi í morgun með fulltrúum forsætis-, efnahags- og viðskiptaráðuneytis auk utanríkisráðuneytinu til að fara yfir fjárlagafrumvarpið og fjáraukalagabeiðnir frá ráðuneytunum.

Kristján segir margt mjög fróðlegt koma fram í fjárlögunum og fjáraukalögunum. „Við erum að kaupa sendiherrabústað í London fyrir 830 - 840 milljónir. Maður spyr sig hvaða áherslur þetta eru. Svo sér maður náttúrlega mikinn kostnað við sendiráðin. Það er spurning hvort við eigum að halda þessu öllu úti með þessum kostnaði sem þarna er," segir Kristján.

Í fjáraukalögunum er tekið fram að dýrari sendiráðsbústaður í London hafi verið seldur og hinn nýi keyptur í staðinn. Afgangur ríkisins af viðskiptunum nemi 900 milljónum króna. Kristján segir þetta rétt athugað. „Þetta er ekki eins dýrt og bústaðurinn sem var seldur," segir Kristján. Menn hljóti samt að spyrja sig hvort það sé nauðsynlegt að eiga sendiráðsbústað fyrir 835 milljónir á sama tíma og verið sé að ganga inn í grunnþjónustuþætti ríkisins.

Kristján bendir á að inni í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár sé áætlun um að kaupa sendiráðsbústað í New York. „Ég veit ekkert hvað ætlunin er að eyða miklu í hann," segir Kristján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×