Innlent

Kvennadagar í sundlaugum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jón Gnarr vakti athygli á að hann stæði í fyrsta skipti í pontu með gleraugu og fannst honum um ákveðin tímamót að ræða.
Jón Gnarr vakti athygli á að hann stæði í fyrsta skipti í pontu með gleraugu og fannst honum um ákveðin tímamót að ræða.
Á borgarstjórnarfundi í gær var farið yfir skýrslu sem starfshópur hefur unnið um sundlaugarnar í Reykjavík.

Umræður sköpuðust og talaði Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstrigrænna, sérstaklega um að það þurfi að kyngreina þjónustuna sem borgin veiti og að fleiri karlar en konur sæki sundstaði borgarinnar.

Jón Gnarr, borgarstjóri, sagði Sóleyju hafa vakið hann til umhugsunar.

„Ég tek undir að það vanti kynjaðar áherslur. Ég hef heyrt þeirri hugmynd fleygt að hafa sérstaka kvennadaga í sundlaugum, þar sem sundlaugar eru eingöngu opnar konum og körlum er meinaður aðgangur. Það finnst mér spennandi hugmynd og væri gaman að sjá hvernig það tækist til," sagði Jón Gnarr í ræðu sinni.

Jón talaði einnig um mikilvægi sundlaugamenningar á íslandi og hvernig hún mótar íslenska þjóðarsál.

„Það að fara í sund er ekki bara heilsurækt heldur miklu frekar félagsleg athöfn og má þá sérstaklega nefna heita pottinn. Þar kemur fólk saman og talar saman. Ólíkt mörgum öðrum tækifærum þá er fólk að jafnaði ekki undir áhrifum áfengis, það ræðir saman án þess að vera ölvað. Það er ekki sjálfgefið því fólki finnst oft þægilegra að vera ölvað þegar það ræðir saman," sagði Jón Gnarr í ræðu sinni.

Í byrjun ræðunnar vakti Jón Gnarr athygli á að hann stæði í fyrsta skipti í pontu með gleraugu og fannst honum um ákveðin tímamót að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×