Lífið

Kvikmyndavefur gerir tökukort

Sunna er ánægð með nýju kortin sem hafa verið útbúin fyrir Icelandic Cinema Online.
Sunna er ánægð með nýju kortin sem hafa verið útbúin fyrir Icelandic Cinema Online. fréttablaðið/stefán
„Þetta eru mjög flott kort,“ segir Sunna Guðnadóttir hjá kvikmyndavefnum Icelandic Cinema Online. Vefurinn hefur útbúið tvö kort þar sem annars vegar eru merktir inn tökustaðir sex kvikmynda á landsbyggðinni og hins vegar nítján íslenskra mynda í Reykjavík.

Þetta er upphafið á verkefni þar sem allir kvikmyndatökustaðir íslenskra og erlendra kvikmynda sem hafa verið teknar upp á Íslandi verða kortlagðir. Vefurinn Kvikmyndir.is hefur áður birt umfangsmikla tökustaðaskrá á síðunni sinni. Að sögn Sunnu notaði kanadíski leikstjórinn Brenda Davis kortið á ferð sinni um borgina á meðan á Riff-hátíðinni stóð og hefur hún núna ákveðið að taka upp mynd í Reykjavík.

Vefsíðan Icelandic Cinema Online er ætluð útlendingum og hefur verið starfrækt síðan í maí í fyrra. „Við komumst á topp tíu í frumkvöðlakeppninni Gullegginu og eftir það fór boltinn að rúlla,“ segir Sunna. Á síðunni geta menn borgað um tvær til fjórar evrur, eða um þrjú til sex hundruð krónur, fyrir að horfa á íslenskt efni, þar á meðal kvikmyndir, heimildarmyndir og stuttmyndir. „Við erum eiginlega að vinna brautryðjendastarf í heiminum varðandi það að bjóða upp á efni sem er bara frá einu landi,“ segir hún og bætir við að Þjóðverjar ætli að fara að dæmi Icelandic Cinema Online og opna eigin vef eingöngu fyrir þýskar myndir.

Að sögn Sunnu kemur 85% af umferðinni inn á vefinn erlendis frá og hafa um 120 þúsund manns komið inn á vefinn frá stofnun hans. „Það er gríðarlegur áhugi í útlöndum á íslenskri kvikmyndagerð og það sést svolítið vel á umferðinni.“ -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.