Framhaldsskólaneminn Jón Karl Einarsson viðurkennir að hann hafi verið karlremba áður en hann hóf nám í kynjafræði í Borgarholtsskóla. Í athyglisverðri grein sem birtist eftir hann á Vísi í dag lýsir hann því hvernig námið breytti honum og viðhorfi hans til baráttu kvenna fyrir jafnrétti.
Eða eins og hann orðar það sjálfur: „Þessi áfangi kenndi mér ekki bara sögu kvenréttinda og hversu hörkuleg og ógeðsleg sú barátta gat orðið á tímum heldur kenndi hann mér hvernig konur eru hlutgerðar og neyddar í ýmislegt."
Jón Karl, sem er nítján ára gamall, segir námi ekki hafa breytt sér í „bullandi" femínista, „en þessi áfangi breytti mér mjög mikið til hins betra sem ég þurfti svo sannarlega á að halda," skrifar hann.
Jón Karl segir svo að kynjafræði ætti að vera kennd í hverjum einasta framhaldsskóla landsins. Ástæðan að mati Jóns Karls er einföld: „Til þess að setja karlrembur eins og mig á rétta og betri braut og líka til þess að fræða unga fólkið um stórt málefni sem er í gangi í heiminum í dag. Læra um konur í arabalöndum og líka hvernig konur eru minnimáttar í hinum vestræna heimi."
Hægt er að lesa athyglisverða grein Jóns Karls með því að ýta hlekkinn hér fyrir neðan.

