Skoðun

Kynjamyndir kynjaumræðu

Kristín A. Atladóttir skrifar
Umræðan um kynjahalla í íslenskri kvikmyndagerð tekur á sig fjölmargar myndir.

Nýverið birtist grein í Stundinni undir yfirskriftinni ‘Hlutfall styrkja til kvenkyns kvikmyndagerðarmanna virðist vera réttlátt'. Röksemdirnar sem greinarhöfundur byggir niðurstöðu sína á felast nær eingöngu í þeirri fullyrðingu, sem hugsanlega er staðreynd líka, að kvenkyns kvikmyndagerðarmenn séu einungis 23% af stéttinni. Að úthlutunarhlutfallið endurspegli það. Greinarhöfundur vísar í dagblaðsviðtal sem heimild fyrir tölunum en í því viðtali kemur þó ekki fram hvaðan þær eru fengnar né hvaða skilgreiningar liggja að baki.

Fjöldi fólks vinnur að kvikmyndagerð. Í kvikmynd í fullri lengd má gera ráð fyrir að um eða yfir 100 manns með u.þ.b. 40 -50 starfsheiti komi að framleiðslunni. Það eru hins vegar einungis 3 – 5 einstaklingar á 3 starfssviðum (starfsheitum) að meðaltali sem sækja um styrki til þróunar og framleiðslu. Það er vandkvæðum bundið að koma auga á með hvaða hætti fjöldi og kyn rafvirkja, smiða, hljóðmanna, búningahönnuða, saumakvenna, tökumanna, framleiðslustjóra o.sv.frv. hefur með úthlutnir úr Kvikmyndasjóði að gera. Að draga þá ályktun að hlutfall styrkja til kvenkyns kvikmyndagerðarmanna sé réttlátt því hlutfall umsókna/úthlutana sé uppá sömu tölu og hlufall kvenna sem starfar við kvikmyndagerð almennt er nokkuð sérkennilegt.

Því miður er svipað uppi á tengingnum með tölulegar upplýsingar sem Kvikmyndamiðstöð sendi frá sér nýlega. Þar ægir öllu saman og ekki er gerður greinarmunur á eðli verkefna og þess að þau hafa mismikið vægi. Niðurstaðan virðist vera nokkuð hátt hlutfall úthlutana til kvenna í alsherjarúttekt án tillits til vægis en ósamræmið verður hrópandi þegar horft er til þess að þrátt fyrir þetta háa hlutfall rennur yfir 85% fjármagnsins til verkefni karla. Að auki kemur í ljós misvægi á milli kynja þegar skoðuð er flutningur á styrkjum af handritsstigi yfir á framleiðslustig. Tölurnar frá Kvikmyndamiðstöð ná yfir árin 2013 og 2014 en skýra ekki hvers vegna nú stendur yfir lengsta samfellda tímabil kvenkynsleikstjóralausrar frumsýningar frá upphafi né það að kvikmyndum kvenkynsleikstjóra hefur hlutfallslega fækkað umtalsvert frá því sem var fyrir aldamót.

Og nú stendur fyrir dyrum málþing um kynjakvóta. Slík umræða styður þá viðleitni að vekja athygli á stöðu sem flestum, konum og körlum, þykir óásættanleg. Vandinn er þó að enn liggja ekki fyrir upplýsingar sem staðfesta að staðan sé sú sem hún sýnist vera. Það er ekki heldur stuðst við gögn sem skýra hver orsök kynjahallans, sem virðist vera til staðar, er. Það hlýtur að vera skilyrði fyrir úrbótum að aðgerðir miði að því að uppræta orsakir um leið og unnið er á birtingarmyndum vandans. Ef raunveruleg staða og orsök er ekki þekkt er útilokað að vita hvaða aðgerðir eru vænlegar til árangurs.

Það er ekki flókið að komast að óumdeilanlegum niðurstöðum í tölfræði kvikmyndastyrkja á Íslandi, niðurstöðum þar sem forsendur eru ljósar sem og hvaða spurningum er verið að svara. Tilgangslaust er að fleygja ófullnægjandi og misvísandi tölum á milli sín og hártoga um málefni þar sem sýnileg niðurstaða liggur fyrir, en eðli og orsakir eru ókunnar.

Stjórnvöld veita umtalsverðu almannafé til kvikmyndagerðar vegna þess efnahags- og menningarlega ávinnings sem af hlýst og sem skilar sér einum og öðrum hætti, beinum og óbeinum, aftur til skattgreiðenda. Tryggja verður að vel sé farið með féð og að tilgangi og markmiðum sé fylgt. Slíkt er á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis í þessu tilfelli. Það er þess að standa fyrir stefnumótun, tryggja árangursríka úrvinnslu og að fylgjast með skilvirkni og árangri. Sem og að framfylgja jafnréttisstefnu stjórnvalda.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×