Innlent

Kynjaskipt svefnpokapláss á Þjóðhátíð

Erla Hlynsdóttir skrifar
Þjóðhátíðarnefnd Vestmannaeyja keypti í morgun hluta af miðunum sem seldir verða með Herjólfi í kring um hátíðina. Ekki fæst uppgefið hversu stóran hluta nefndin keypti. Í ár verður í fyrsta sinn boðið upp á vaktað kynjaskipt svefnrými innahúss á Þjóðhátíð.

Byrjað var í morgun að selja miðana.

„Við keyptum hluta af miðunum til að setja í sölu með miðum í Herjólfsdal," segir Páll Scheving Ingvarsson, formaður þjóðhátíðarnefndar. Hann vill ekki gefa upp um hversu stórt hlutfall mðanna er að ræða. „Við viljum nú kannski ekki gefa það upp. Ég held að það sé misjafnt eftir ferðum," segir Páll. Miðarnir sem nefndin keypti eru í ferðir á fimmtudag og föstudag fyrir þjóðhátíðarhelgina, og svo á mánudag og þriðjudag.

Þetta er í fyrsta skipti sem nefndin kaupir miða með Herjólfi. Páll segir að aðrir hafi þó áður selt saman miða í Herjólf og í Herjólfsdal.

Ástæðuna fyrir kaupunum segir Páll vera til að fá betri yfirsýn yfir gestafjölda, og til að nýta ferðir Herjólfs til fulls. Oft hafi miðar með Herjólfi hreinlega selst upp á tveimur dögum þegar byrjað er að selja miðana í marsmánuði. „En síðan er fólk ekki alltaf að nýta farmiðana og er þá um leið í raun að „blokkera" aðgang annarra á sama tíma," segir Páll.

Hann tekur fram að nefndinn hafi keypt miðana fullu verði, og þeir verði seldir áfram fyrir sömu upphæð, jafnvel í pakka þar sem einnig er boðið upp á gistingu.

„Við ætlum að bjóða upp á nýja gistimöguleika. Við ætlum að tjalda inni í nýja knattspyrnuhúsinu og leigja þar gistingu, undir þaki, í skjóli, í vöktuðu húsnæði. Við munum líka bjóða upp á kynjaskipta gistingu í íþróttasölum þar sem verður vöktun líka, þar sem stelpur verða sér og strákar verða sér í svefnpokaplássum."

Eftir síðustu Þjóðhátið var mikil umræða um þær nauðganir sem áttu sér stað á hátíðinni. Er þess aukna gæsla og kynjaskipting viðbrögð við þeim?

„Kannski ekki bein viðbrögð. Við teljum þetta bara vera vinkil á því að geta betur tryggt öryggi," segir Páll.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×