Innlent

Læknafélagið á móti takmörkun tóbakssölu við ÁTVR

Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands.
Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélags Íslands. Mynd/ Valli
Birna Jónsdóttir, formaður Læknafélagsins, segir það vera mat félagsins að hugmyndum um færa alla tóbakssölu í ÁTVR beri að hafna. Hún bendir á þá staðreynd að margir óvirkir fíklar í önnur efni noti tóbak og segir að það væri tillitsleysi að senda óvirka alkóhólista inn í áfengisverslanir að kaupa sér sígarettur.

Í aðsendri grein sem birtist á Vísi fyrr í dag gagnrýnir Teitur Guðmundsson, læknir, þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram á Alþingi um takmörkun sölu tóbaks við apótek. Í greininni segir hann fíkniefni á borð við tóbak ekkert erindi eiga inn í apótek, þar sem þeim yrði stillt upp við hliðina á vörum sem hafa lækningarmátt eða er á einhvern hátt ætlað að bæta heilsu þeirra sem þær kaupa. Hann segir einnig að ef ætlunin með tillögunni sé að gera aðgengið að tóbaki erfiðara, væri það betur geymt bak við kassann í ÁTVR þar sem opnunartímar væru styttri og útibú færri.

Birna hafnar þessu og tekur fram að tillagan um að færa tóbakssöluna í apótek renni beint undan rifjum læknafélagsins en fjallað hafi verið um málið á aðalfundi félagsins þar sem meirihlutinn hafi fallist á þessa nálgun.

Birna tekur fram að nikótín sé nú þegar selt í apótekum í mismunandi formum en það sé til þess ætlað að þeir sem séu í baráttu við fíknina geti svalað henni. Nái frumvarpið fram að ganga munu læknar ekki ávísa tóbaki nema sá sem leiti eftir lyfseðlinum hafi sannarlega reynt að hætta. Birna bætir við að Teitur Guðmundsson, sem sé ekki sérfræðingur í fíknarlækningum, megi hafa sína skoðun en ítreka beri að hún sé ekki skoðun Læknafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×