Skoðun

Læknaflokkurinn? – Hvað er á seyði?

Í þættinum „frá degi til dags“ í Fréttablaðinu sl. þriðjudag er verið að gera því skóna að VG í Kraganum, þ.e. Suðvesturkjördæmi, sé að verða eins konar „læknaflokkur,“ svo margir læknar hafi skráð sig í flokkinn þar að undanförnu. Ekki kom mér þetta á óvart vitandi að Ögmundur Jónasson er þar í framboði. Eftir allan þann málflutning sem hann hefur haft uppi til varnar og stuðnings heilbrigðiskerfinu og þar með læknastéttinni, fannst mér ekkert undarlegt að hann fengi stuðning úr þeirri átt. En viti menn! Síðan les ég áfram og rennur það þá upp að læknar hafi umvörpum látið skrá sig í VG að undanförnu til að kjósa inn kollega sinn, Ólaf Þór Gunnarsson og þar með kjósa Ögmund út en Ólafur Þór sækist eftir að leiða listann í stað Ögmundar. Auðvitað gera þessir læknar það sem þeir telja vera fyrir bestu en nokkuð finnst mér skjóta skökku við ef heilbrigðisstéttirnar eru farnar að sameinast gegn Ögmundi Jónassyni sem hefur flestum mönnum framar reynt að standa vörð um heilbrigðiskerfið, bæði sem formaður BSRB í rúm tuttugu ár og síðan þingmaður og ráðherra. Ég hef starfað lengi með Ögmundi Jónassyni og veit því vel hvernig hann forgangsraðar. Það hefur alla tíð verið í þágu velferðarkerfisins. Ég man vel kjaramálaumræðuna í BSRB í formannstíð hans og hvernig hann jafnan sagði að það sem mestu máli skipti í hverju þjóðfélagi væri góð heilbrigðisþjónusta. Ef heilsan brestur skipti sú þjónusta öllu máli. Miklu meira máli en hverfult kaupgjaldið. Í framhaldi af fyrrgreindum skrifum langaði til að koma á framfæri áskorun til heilbrigðisstéttanna um að styðja við bakið á Ögmundi Jónassyni eins og hann hefur stutt við bakið á okkur og velferðarþjónustunni í landinu um áratugaskeið.



Skoðun

Sjá meira


×