Innlent

Lækningaforstjóri Landspítalans: Ástandið ógnar öryggi sjúkling

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
„Núverandi ástand ógnar öryggi sjúklinga“, segir Ólafur Baldursson lækningaforstjóri Landspítalans og segir liggja á að að byggja nýjan spítala. Hann segir að það sé alvarlegt mál að afvegaleiða umræðuna um byggingu spítala sem snúist í raun um öryggi sjúklinga og byggja það á skýrslu sem sé í besta falli ónákvæm.

Lagt er til að fram­kvæmd­um við nýj­an Land­spít­ala verði frestað um 2-3 ár og hon­um fund­inn ann­ar staður, í nýrri skýrslu rann­sókn­ar­stofn­un­ar at­vinnu­lífs­ins sem kynnt var á morgunverðarfundi SA í morg­un. Skýrsluhöfundar telja að það sé síst dýrara að finna spítalanum annan stað og vegna efnahagsástandsins væri hagkvæmt að fresta þensluvaldandi framkvæmdum.

Tækifæri til að sýna aðhald

Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur segir að með því að breyta staðarvali, losni um lóðir í Fossvogi, við Hringbraut og á Landakoti. Ef spítalinn verði byggður á stað þar sem hægt verði að hafa byggingarnar hærri, lækki það byggingakostnað enn frekar.

Gunn­ar Al­ex­and­er er einnig gagnrýninn á þær fyrirætlanir að hefja framkvæmdir á Hringbrautinni á því að reisa nýtt sjúkra­hót­el við Hring­braut en það á að kosta tvo millj­arða. Það sé til einkarekið sjúkra­hót­el sem sé ekki full­nýtt. Þá sé staðan í efnahagsmálum alvarleg og þetta sé kjörið tækifæri til að sýna aðhald í ríkisfjármálum.

„Við sem höfum unnið hér við að reka spítalann á horriminni í gegnum kreppu, hljótum að spyrja hvort nú sé ekki tími til að sækja fram,” segir Ólafur Baldursson. „Eða hvort öryggi sjúklinga sé einfaldlega aldrei á dagskrá, hvort sem það er kreppa eða þensla.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×