Viðskipti innlent

Lán fyrir Búðarháls bíða Icesave-lausnar

Hörður Arnarson
Hörður Arnarson

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að lokið verði við fjármögnun Búðarhálsvirkjunar á næstu vikum. Lausn Icesave-deilunnar, sem nú hillir undir, gæti haft úrslitaáhrif.

Vegna óvissu um fjármögnun Búðarhálsvirkjunar ákvað Landsvirkjun fyrir ári síðan að hefjast handa við undirbúningsframkvæmdir með eiginfé fyrirtækisins. Þá stóðu yfir viðræður við Evrópska fjárfestingabankann og íslenska lífeyrissjóði vegna fjármögnunar verkefnisins en staða þjóðmála, og þá ekki síst Icesave-deilan, stóðu í veginum. „Fleiri erlendir bankar hafa komið inn í þessa mynd síðan; við erum að tala við þrjá, fjóra erlenda banka núna," segir Hörður.

Spurður hvort lánasamningar liggi ekki á borðinu og þeir verði undirritaðir um leið og Icesave-málið er úr sögunni, segir Hörður að hann vilji ekki fullyrða slíkt. „Það getur alltaf eitthvað annað komið upp. En það er rétt að viðræður við erlenda banka eru á lokastigi," segir Hörður. „Við teljum að fjármögnun í gegnum fjármálastofnanir muni ganga eftir á næstu vikum ef tekst að ljúka Icesave-deilunni."

Landsvirkjun og Ístak undirrituðu samkomulag á dögunum sem felur í sér að vinna við Búðarhálsvirkjun er sett í fullan gang.

„Út frá hagsmunum fyrirtækisins tel ég það afar jákvætt að leysa þetta Icesave-mál," segir Hörður. „Þetta mun örugglega auðvelda okkur fjármögnun, og þá ekki bara fyrir Búðarháls heldur fyrir öll önnur verkefni sem við erum með í skoðun. Lausn þessa máls hefði líka jákvæð áhrif á lánshæfismat fyrirtækisins og íslenska ríkisins sem myndi hafa jákvæð áhrif á aðgengi að fjármagni fyrir öll íslensk fyrirtæki." - shá








Fleiri fréttir

Sjá meira


×