Innlent

Landeigendur við Hrunalaug ráðþrota

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Landeigendur við Hrunalaug í Hrunamannahreppi segjast vera ráðalausir vegna ferðamanna sem flykkjast nú þangað í stórum stíl. Umgengnin er oft á tíðum slæm og landið farið að láta á sjá.

Eiríkur Steindórsson á landið sem Hrunalaug tilheyrir en hann segir ferðamannastrauminn hafa aukist jafnt og þétt síðan laugin rataði í ferðabók fyrir um fimm árum síðan. Nú finnst varla sá íslenski leiðarvísir þar sem ekki er á hana minnst.

Í ár varð algjör sprenging í aðsókn en um tvö hundruð ferðamenn, íslenskir og erlendir, leggja leið sína í Hrunalaug dag hvern. Það má því ætla að mörg þúsund manns fari um landið yfir sumartímann.

Landið sem Hrunalaug tilheyrir hefur verið í fjölskyldunni í marga ættliði, en afi Eiríks hlóð efri laugina fyrir meira en hundrað árum síðan. Honum brá því heldur illa í brún þegar einhverjir laugargestir höfðu tekið sig til og fært steina úr hleðslunni.



„Það þótti mér verst. Þeir voru að reyna að gera einhverja stíflu úr þessu,“ segir Eiríkur.

Eiríkur og Helena, dóttir hans, vita til þess að ferðaþjónustufyrirtæki selji rútuferðir í Hrunalaug. Sjálf hafa þau aldrei rukkað fyrir aðgang í laugina og fara nokkrum sinnum í viku til að týna upp rusl í kringum svæðið og sinna viðhaldi. Það er farið að sjást verulega á landinu vegna aukins álags.

„Auðvitað viljum við að fólk njóti náttúrunnar og við erum ofboðslega stolt af þessum stað. Þetta er bara alltof mikið, við komust ekki einu sinni sjálf að hérna. Við erum svona að velta fyrir okkur hvað er best að gera, hvort við förum í uppbyggingu eða lokum svæðið einfaldlega af, “ segir Helena, en þau feðgin vilja benda ferðamönnum á laugarnar tvær á Flúðum, sundlaugina og gömlu laugina í Hvammi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×