Viðskipti innlent

Landsbankinn notaði Avens til að mjólka BCL

Hollenska fjármálafyrirtækið Avens B.V. var stofnað af Landsbankanum sumarið 2008 gagngert til að mjólka Seðlabanka Lúxemborgar (BCL) um 100 milljarða kr. Sagt er að Sigurjón Árnason þáverandi bankastjóri Landsbankans hafi átti hugmyndina að þessari fléttu.

Sumarið 2008 keypti Landsbankinn gríðarlegt magn af ríkisskuldabréfum á Íslandi og notaði til þess fjármagnið sem bankinn fékk úr svokölluðum „ástarbréfaviðskiptum" sínum við Seðlabankann. Ríkisskuldabréfin voru sett inn í Avens sem gaf síðan út skuldabréf í evrum á móti. Evrubréfin voru svo lögð inn í BCL sem veð gegn lánum.

Landsbankinn notaði síðan skuldabréfin sem veð fyrir lánum frá Seðlabanka Lúxemborgar. Sökum þessara viðskipta versnaði skuldastaða Íslands um rúma 100 milljarða kr. um sumarið.

Unnið hefur verið að samkomulagi um að ríkisskuldabréfin sem BCL hélt á kæmust aftur í eigu íslenska ríkisins og nú hefur það tekist. Seðlabanki Evrópu átti aðild að þessum samningum en um tíma leit út fyrir að bréfin kæmust í eigu hans. Auk þess kom skilanefnd Landsbankans að málinu.

Í vetur kom síðan Seðlabanki Íslands að málinu til að liðka fyrir um samkomulag og það hefur nú tekist.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×