Viðskipti innlent

Landsframleiðslan dróst saman um 3,5% í fyrra

Landsframleiðsla dróst saman að raungildi um 3,5% á árinu 2010 samkvæmt áætlun Hagstofu Íslands. Þetta er verulega minni samdráttur en árið 2009 þegar hann nam 6,9%. Samdrátturinn síðastliðin tvö ár kemur í kjölfar samfellds hagvaxtar frá og með árinu 1993.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að samdráttur þjóðarútgjalda á árinu 2010 varð nokkru minni en samdráttur landsframleiðslu, eða 2,5%. Samdráttur varð í öllum þáttum þjóðarútgjalda, einkaneysla dróst saman um 0,2%, samneysla um 3,2% og fjárfesting um 8,1%:

Aftur á móti jókst útflutningur um 1,1% og innflutningur um 3,9%. Þrátt fyrir þessa þróun er verulegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu 2010, eða 162 milljarðar króna.

Landsframleiðsla dróst saman um 1,5% að raungildi milli 3. og 4. ársfjórðungs 2010. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 1,6%. Einkaneyslan jókst um 1,6% og fjárfestingin um 14,9%. Samneysla dróst hins vegar saman um 0,5%. Þá jókst útflutningur um 3,0% og innflutningur um 10,0% á sama tímabili. Þessar tölur eru árstíðaleiðréttar og miðast við vöxt milli ársfjórðunga, ekki ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×