Innlent

Langt því frá að gistirými á Íslandi sé uppbókað út árið

Birgir Olgeirsson skrifar
Talið er að 1,5 milljónir erlendra ferðamanna muni koma til Íslands í ár og hafa þegar borist fregnir af því að allt gistirými á Íslandi sé uppbókað. Fjallað var um málið í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem rætt var við Ásbjörn Björgvinsson, formann Ferðamálasamtaka Íslands. Hann sagði það ekki svo að gistirými á Íslandi væri uppbókað.

Sagði hann eina orsökin vera þá að stórar ferðaskrifstofur taka frá ákveðinn hluta gistirýmis á Íslandi og eigi síðan eftir að selja þau.

„Þannig virkar það að gististaðir séu orðnir fullir núna en það er alls ekki þannig og mjög víða um landið enn þá hægt að fá gistingu. En það fer hver að vera síðastur ef menn eru að fara hugsa til sumarsins,“ sagði Ásbjörn.

Hann sagði að þær breytingar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, vildi gera á regluverki deilihagkerfisins eiga eftir að auka framboð á gistingu sem er á yfirborðinu. Verði af þessum breytingum verður einstaklingum heimilt að leigja út heimili sitt og aðra fasteign sem þeir hafa til persónulegra nota í allt að 90 daga á ári án þess að krafist sé rekstrarleyfis.

„Þarna munu opnast möguleikar á gistingu sem hafa verið undir yfirborðinu og því viljum við eyða,“ sagði Ásbjörn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×