Innlent

Leggst gegn hlutlausri úttekt

Félagsmálaráðuneyti leggst gegn hlutlausri úttekt á fjárhagslegri stöðu Íbúðalánasjóðs sem ákveðið var að ráðast í í júní og ber við kostnaði. Ríkisábyrgðarsjóður getur ekki mælt með frekari ríkisábyrgðum vegna sjóðsins meðan engin úttekt liggur fyrir. Skýrsla ríkisendurskoðunar um sjóðinn er væntanleg í næstu viku.

Samkvæmt samkomulagi milli fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra 23. júní átti að fara fram hlutlaus úttekt á fjárhagslegri stöðu Íbúðalánasjóðs. Það var fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspá sem átti að vinna úttektina. Þeirri vinnu átti að hraða sem kostur væri, ekki síst vegna mikillar gagnrýni og efasemda um stöðu sjóðsins vegna mikils uppgreiðsluvanda.

Ekkert bólar hins vegar á úttektinni enda leggst félagsmálaráðuneytið nú gegn því að hún verði gerð samkvæmt heimildum fréttastofu. Í félagsmálaráðuneytinu fengust þau svör að menn hefðu mismunandi skoðanir á því hversu langt ætti að ganga. Þá væri horft í kostnaðinn, deilt væri um hver ætti að greiða reikninginn. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir ríkisábyrgð vegna 88 milljarða króna lánveitinga til íbúðalánasjóð á næsta ári.

Hjá lánasýslu ríkisins fengust þær upplýsingar í dag að ef fjárlaganefnd Alþingis kallaði eftir upplýsingum um hvort rétt væri að veita slíkar ríkisábyrgðir væri ekki hægt að svara því játandi eða neitandi meðan engin úttekt hefði farið fram. Meðan óvissa ríkti um stöðu Íbúðalánasjóðs væri ekki hægt að mæla með frekari ríkisábyrgðum fyrir sjóðinn. Ríkisendurskoðun vinnur nú að stjórnsýsluúttekt á Íbúðalánasjóði þar sem sérstaklega er tekið til þess hvort heimilt hafi verið að gera umdeilda lánasamninga við banka og sparisjóði. Fjárlaganefnd kallaði eftir slíkri skýrslu í kjölfar frétta Stöðvar 2 um lánveitingar sjóðsins til bankanna. Skýrslan veður kynnt í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×