Innlent

Leikskólabörn í Aðalþingi fá hægan mat á hlaðborði

Eftir sumarfrí hófst tilraun með hlaðborð fyrir eldri börnin í Aðalþingi. „Þau velja einfaldlega mat á diskinn sinn og setjast þar sem þau vilja. Þau læra þetta strax,“ segir Sigurður Þór Salvarsson.
Eftir sumarfrí hófst tilraun með hlaðborð fyrir eldri börnin í Aðalþingi. „Þau velja einfaldlega mat á diskinn sinn og setjast þar sem þau vilja. Þau læra þetta strax,“ segir Sigurður Þór Salvarsson. Fréttablaðið/valli
Rekstrarstjóri leikskólans Aðalþings í Kópavogi segir ekki dýrara að vinna mat frá grunni fyrir börn og starfsfólk en að kaupa aðsendan mat. Faglærður kokkur eldar ofan í mannskapinn sem er afar ánægður.

 

„Við fáum mjög margar fyrirspurnir frá foreldrum sem óska eftir uppskriftum af því börnin eru að biðja um að maturinn heima sé eins og í leikskólanum,“ segir Sigurður Þór Salvarsson, rekstrarstjóri leikskólans Aðalþings í Kópavogi.

Leikskólinn í Aðalþingi hefur verið starfræktur frá árinu 2009 og fylgt stefnu sem kennd er við ítölsku borgina Reggio Emilia eins og yfir þrjátíu aðrir skólar hérlendis. Sigurður segir hluta stefnunnar vera svokallaða „slowfood“ matargerð. Hugað sé að því að allt hráefni sé hreint og úr heimabyggð.

„Við vinnum allan mat frá grunni í skólanum. Það er ekkert keypt inn af unnum matvörum. Við búum meira að segja til okkar eigin tómatsósu, bökum brauð og kokkurinn okkar hefur verið að prófa sig áfram í ostagerð,“ segir Sigurður sem kveður rekstur mötuneytisins ekki dýrari en í hverjum öðrum skóla.

„Við teljum okkur vera að nýta hráefnið betur og fórum líka þá leið að ráða strax fagmenn í eldhúsið hjá okkur. Þótt þeir séu aðeins dýrari þá höldum við kostnaðinum niðri því fagmaður vinnur skipulegar og skilar meiru af sér en ófaglærður maður,“ segir rekstrarstjórinn og upplýsir að matreiðslumaðurinn í Aðalþingi frá því í vor sé kona sem áður var yfirmatreiðslumaður á veitingastaðnum La Primavera. „Þannig að við erum ekki með neinn slorkokk.“

Um 120 börn og þrjátíu starfsmenn eru í Aðalþingi. Sigurður segir að um nokkurra vikna skeið í vor hafi skólinn verið „milli kokka“ og keypt mat frá fyrirtækinu Skólamat.

„Við höfum aldrei hent eins miklu af mat eins og þessar vikur. Bæði börn og starfsmenn voru mjög óhress með breytinguna. Mér sjálfum finnst alveg galið að það sé verið að keyra mat frá Keflavík og halda honum heitum í marga klukkutíma til að bera á borð fyrir börn í Kópavogi eins og dæmi eru um,“ segir Sigurður en tekur þó fram að grunnur þess að geta gert góða hluti í matsalnum sé góð aðstaða og góð tæki. Ekki búi allir skólar að því.

Börnin fá að fylgjast með matseldinni eins og hægt er. „Það er hluti af þessu öllu saman að börnin viti hvaðan maturinn kemur. Það fer heilmikil kennsla fram í gegnum eldamennskuna,“ segir Sigurður og undirstrikar að maturinn í Aðalþingi sé mun heilsusamlegri en tilbúin matvæli á borð við pylsur, bjúgu og forsteiktar kjötbollur. „Tilbúinn matur er lagaður í stórum maskínum þar sem menn blanda alls kyns rotvarnar- og litarefnum saman við. Slík efni koma ekki hér inn í hús.“gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×