Skoðun

Líf á biðstofunni

Bryndís Björnsdóttir skrifar
Þrítugasta apríl síðastliðinn kom fram viðtal við Kristínu Guðmundsdóttur sem var í þann mund að hefja söfnun fyrir styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans, Líf. Með söfnuninni vill Kristín leggja áherslu á að kvennadeildin bæti aðbúnað kvenna sem hafa misst börn sín á meðgöngu eða í fæðingu. Í viðtalinu kom fram að Kristín hafði nýverið misst tvíburadrengi sína og hafði þurft að ganga í gegnum þá reynslu að sitja á biðstofu kvennadeildar eftir þann missi með óléttum konum sem biðu eftir að komast í sónar. Með þessu lofsverða framtaki bendir Kristína á þætti sem hafa ekki áður verið bornir fram á opinberum vettvangi en verið umtalaðir kvenna á milli. Aðstaðan á kvennadeild Landspítalans þarfnast umbóta. Styrkur Kristínar hefur fengið mig til þess að vilja benda einnig á að í þessu rými bíða aðrar konur. Konur sem hafa gengið í gegnum fóstureyðingu.

Með þessum skrifum vil ég benda á þann hóp kvenna sem forðast er að nefna í þessu samhengi en sem ég tel að eigi einnig við þá styrktarsöfnun sem Kristín stendur fyrir.

Sjálf hef ég gengið í gegnum fóstureyðingu og þekki þær flóknu tilfinningar sem hún getur vakið. Á biðstofu kvennadeildar Landspítalans lætur kona sem hefur gengið í gegnum fóstureyðingu þær óheppilegu aðstæður ganga yfir sig, þar sem þetta var hennar val. Þeirri miklu sorg sem fóstureyðing getur vakið er ekki gefið svigrúm þar. Samfélagið virðist betur í stakk búið að gangast við lagalegum forsendum fóstureyðingar en þeim miklu sálrænu flækjum sem hún getur kallað fram.

Hver sem ákvörðun kvenna verður þegar kemur að slíku vali er um að ræða erfiðan stað að gangast við. Ef samfélagið er búið að heimila slíkar aðgerðir undir formerkjum jafnréttis tel ég að samfélagið ætti að gangast við því til fulls og ekki loka dyrum á þessar konur að aðgerðinni lokinni. Þöggun er ekki rétta lausnin. Mikill fjöldi kvenna á Íslandi hefur gengið í gegnum slíka reynslu og þarf að geta átt orð um hana.

Konur eru annað en staðreyndir og stærðir. Við höfum okkar ólíku upplifanir sem eru margþættar og sem ætti að taka til greina. Því tel ég að það eigi að horfast í augu við hversu flókin tilveran er og leyfa konum að mætast á biðstofu sem tekur opnum örmum hvaða lífi sem er.




Skoðun

Sjá meira


×