Skoðun

Lífeyrissjóðirnir: Skylda, frelsi og ábyrgð

Vilhjálmur Egilsson skrifar
Samkvæmt lögum eru allir á vinnumarkaði skyldugir til þess að greiða í lífeyrissjóð. Um þessa skyldu er víðtæk samstaða. Í löndum þar sem lífeyrissjóðir hafa lítið hlutverk fara skattar síhækkandi vegna fjölgunar aldraðra. Kosturinn við sjóðssöfnun lífeyrissjóða er að stór hluti lífeyrisins er uppsafnaðar fjármagnstekjur. Skylduþátttaka í lífeyrissjóði er nauðsynleg til að koma í veg fyrir að þeir sem koma sér undan iðgjöldum fái fullar greiðslur úr almannatryggingum. Ef sá möguleiki væri fyrir hendi gæti fólk velt byrðum yfir á samborgarana án þess að leggja eðlilegt framlag af mörkum.

Skipulag lífeyrissjóða er sífellt til umræðu enda eru sjóðirnir með mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Meðal álitamála er hvernig fólk uppfyllir greiðsluskyldu sína, rétt til að velja sjóð og stjórnun sjóðanna. Í lögum um lífeyrissjóði er annars vegar frelsi til að velja tiltekinn sjóð og hins vegar frelsi til að gera kjarasamninga um stofnun og rekstur lífeyrissjóða. Sjóðirnir hafa sjálfir vald til þess að ákveða um stjórnskipan sína og stjórnir eru einkum skipaðar af aðstandendum þeirra en nokkrar kosnar af sjóðsfélögum.

Meðal öflugustu í heimi

Lífeyrissjóðirnir hafa verið í uppbyggingu í langan tíma og aðilar vinnumarkaðarins hafa verið í fararbroddi. Stefna stéttarfélaganna er að tengja uppbyggingu lífeyrisréttinda við gerð kjarasamninga og kveða þar á um iðgjöld í lífeyrissjóðina. Þróun lífeyrismála hefði orðið allt önnur ef aðilar vinnumarkaðarins hefðu ekki tekið að sér þetta hlutverk. Þá hefði lífeyrissjóðakerfið mótast fyrst og fremst í gegnum stjórnmálakerfið. Niðurstaðan af forystu aðila vinnumarkaðarins er hins vegar sú að íslensku lífeyrissjóðirnir eru meðal þeirra öflugustu í heiminum og eitt af því sem hvað best hefur tekist í íslensku samfélagi.

Aðilar vinnumarkaðarins axla ábyrgð á stjórn lífeyrissjóða á samningssviði þeirra. Samtök atvinnulífsins og stéttarfélögin tilnefna í stjórnir sjóðanna á almenna vinnumarkaðnum og sambærilegt gildir fyrir sjóði opinberra starfsmanna. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaganna hafa þau hlutverk í stjórnum sjóðanna að gæta þess að vel sé farið með fé þeirra og starfsemin sé í samræmi við það sem til er ætlast. Hagsmunir viðkomandi sjóða eru í fyrsta og eina sætinu. Sjóðirnir eru ekkert annað en lífeyrisréttindi sjóðsfélaganna í nútíð og framtíð.

Lykilspurningar

Stundum heyrast efasemdir um það fyrirkomulag að Samtök atvinnulífsins eða atvinnurekendur skipi fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða til jafns við stéttarfélögin. Rökin fyrir því eru þau að uppbygging og rekstur lífeyrissjóðanna er sameiginlegt verkefni fyrirtækjanna og starfsfólksins og framlög í lífeyrissjóðina tengjast þátttöku á vinnumarkaði. Fyrirtækin standa frammi fyrir því að kröfur um launakostnað og framlög í lífeyrissjóði fara eftir því hvernig til tekst í uppbyggingu þeirra. Hagsmunir fyrirtækjanna og Samtaka atvinnulífsins í stjórnum lífeyrissjóða eru alfarið þeir að sem best takist við rekstur og uppbyggingu þeirra. Slakur árangur kallar á meiri kostnað allra fyrirtækja og rýrir hag þeirra. Það er því skýr afstaða Samtaka atvinnulífsins að taka þátt í stjórn lífeyrissjóðanna meðan þeir eru á annað borð viðfangsefni kjarasamninga.

Það er óhjákvæmilegt að spyrja nokkurra lykilspurninga þegar efast er um aðkomu aðila vinnumarkaðarins að lífeyrissjóðunum. Verður sjóðunum stýrt af meiri ábyrgð ef stjórnmálamenn verða í aðalhlutverki í þróun og uppbyggingu lífeyriskerfisins? Er tryggingafræðilegur halli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins kannski dæmi um ábyrgð og framsýni í lífeyrismálum? Hvaða afl hefðu lífeyrissjóðirnir til að standa gegn tillögum, tilraunum og aðgerðum ríkisstjórnar og þingmanna til að rýra sjóðina með skattlagningu eða öðrum byrðum óskyldum hlutverki þeirra ef aðilar vinnumarkaðarins væru ekki bakhjarlar þeirra?




Skoðun

Sjá meira


×