Innlent

Lífsánægja samkynhneigðra unglinga er margfalt minni

Þóroddur Bjarnason
Þóroddur Bjarnason
Samkynhneigðir unglingar eru mun líklegri til að hugsa um sjálfsvíg en gagnkynhneigðir jafnaldrar þeirra. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn. Prófessor gagnrýnir bloggskrif grunnskólakennara á Akureyri.

Sjálfsvígshugleiðingar og ítrekaðar tilraunir til sjálfsvíga eru margfalt algengari meðal samkynhneigðra unglinga hér á landi heldur en gagnkynhneigðra jafnaldra þeirra.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar greiningar Þórodds Bjarnasonar og Ársæls Más Arnarssonar, prófessora við Háskólann á Akureyri, eru samkynhneigðir unglingar nærri tólf sinnum líklegri til að hugsa ítrekað um sjálfsvíg og allt að 25 sinnum líklegri en aðrir íslenskir unglingar til að hafa reynt að fremja sjálfsvíg margsinnis.

Í rannsókninni voru spurningar lagðar fyrir nemendur tíunda bekkjar í öllum grunnskólum landsins. Um tvö prósent stráka og stelpna sögðust hafa verið skotin í einhverjum af sama kyni. Rúm tvö prósent stráka og eitt prósent stelpna höfðu sofið hjá einhverjum af sama kyni.

Þóroddur segir niðurstöðurnar sýna ótvírætt að margir íslenskir samkynhneigðir unglingar upplifi mikla höfnun og andúð, sérstaklega í skólasamfélaginu.

„Lífsánægja þeirra er mun minni, þau eru mun líklegri til að vera þunglynd og kvíðin og líða illa í skólanum og þau eru mun líklegri til að finnast skólafélagarnir vera óvingjarnlegir," segir Þóroddur. „Það er augljóst að þau þurfa á miklum stuðningi og skilningi að halda og kennarar og skólayfirvöld bera afar mikla ábyrgð á því að rækta samfélag þar sem þessir unglingar eru jafnvelkomnir og aðrir."

Í því samhengi vísar Þóroddur í skrif Snorra Óskarssonar, kennara í Brekkuskóla á Akureyri, um samkynhneigð.

„Skólayfirvöld á Akureyri hafa tekið á þessu af mikilli festu og staðið með börnunum í erfiðu máli sem vekur mikilvægar spurningar um réttindi og skyldur grunnskólakennara," segir hann.

Akureyrarbær hefur sett Snorra í sex mánaða launað leyfi frá störfum eftir að skrif hans voru tekin fyrir.- sv

fréttablaðið/valli


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×