Innlent

Lífshættulegt fyrir kjúklinga að fara í sláturhús

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þetta er í annað sinn sem óhapp verður þegar verið er að flytja kjúklinga á leið til slátrunar.
Þetta er í annað sinn sem óhapp verður þegar verið er að flytja kjúklinga á leið til slátrunar.
Um tvö þúsund kjúklingar lentu í lífsháska þegar þeir runnu út úr bíl sem var á leið með þá í sláturhús á Hellu í morgun. Um var að ræða kjúklinga frá kjúklingabúinu á Ásmundarstöðum. Kjúklingarnir voru í á annað hundrað kössum sem voru svo fluttir á bíl í sláturhúsið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli vildi ekki betur til en svo að hleri á bílnum opnaðist með þeim afleiðingum að kassarnir runnu út. Bílstjórinn áttaði sig hins vegar ekki á atvikinu fyrr en hann var kominn á staðinn. Fóru þá menn frá sláturhúsinu og frá hænsnabúinu til þess að bjarga málum.

Kassarnir voru flestir lokaðir þegar þeir fundust aftur, en einhverjir þeirra höfðu opnast og voru því örfáir kjúklingar sem höfðu sloppið út úr þeim. Þótt kalt væri í veðri og volkið hafi orðið nokkuð fyrir kjúklingana voru ekki nema örfáar hænur dauðar. Nú er aftur á móti búið að bjarga kjúklingunum og þeir eru komnir í sláturhúsið.

Þetta er í annað sinn sem kjúklingar á leið í sláturhús lenda í lífsháska því að fyrir einungis þremur dögum valt bíll með sjö þúsund kjúklingum á Holtavörðuheiði. Sá var líka á leið með kjúklingana til slátrunar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×