Innlent

Líkir málflutningi Landsbankamanna við Nurnberg réttarhöldin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhjálmur Bjarnason segir að nær væri að Íslendingar bæðu Breta afsökunar. Mynd/ Stefán.
Vilhjálmur Bjarnason segir að nær væri að Íslendingar bæðu Breta afsökunar. Mynd/ Stefán.
„Ég held að það væri nær að Íslendingar bæðu Breta afsökunar," segir Vilhjálmur Bjarnason, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hann er ekki par hrifinn af ummælum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem sagði í samtali við The Wall Street Journal að Gordon Brown ætti að biðjast afsökunar á því að hafa sagt að Ísland væri gjaldþrota í miðju efnahagsfárviðrinu.

Vilhjálmur segir að Íslendingar ættu að þakka Bretum fyrir það að hafa stöðvað það brjálæði sem var í gangi í íslenska bankakerfinu því ekki hefði gengið að það brjálæði hefði staðið yfir mikið lengur. Þá bendir Vilhjálmur á að Bretar og Hollendingar hafi þurft að taka ábyrgð á innistæðum í íslenskum bönkum eftir hrun þeirra haustið 2008.

Vilhjálmur furðar sig á ummælum Halldórs J. Kristjánssonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, sem sagði í samtali við fréttamenn þegar að hann mætti til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í gær að allt sem hann hefði gert í störfum sínum fyrir bankann væri löglegt. Vilhjálmur Bjarnason segir að þetta sé sama viðkvæði og hafi borið á í Nurnberg réttarhöldunum. Þá furðar Vilhjálmur sig á viðbrögðum fréttamanna við fullyrðingum Halldórs. „Það spurði enginn fréttamaður: Af hverju fór bankinn á hausinn fyrst þú gerðir ekkert ólöglegt," segir Vilhjálmur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×