Viðskipti innlent

Líklegt að gengi krónunnar haldi áfram að veikjast

Líklegt er að gengisþróun krónunnar verði fremur til veikingar en styrkingar á næstunni. Því til rökstuðnings má benda á að gengi krónunnar í nýlegu útboði Seðlabanka Íslands var verulega lægra en opinbert gengi bankans.

Þetta kemur fram í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar segir að verulega skortir á trúverðugleika Seðlabankans og er hann í mjög erfiðri stöðu þar sem verðbólga fer vaxandi þrátt fyrir að enn ríki mikill slaki í hagkerfinu. Ríflegar kauphækkanir í kjölfar kjarasamninga, sem m.a. byggja á því skilyrði að krónan styrkist verulega á samningstímanum, setja bankann í enn erfiðari stöðu.

Komi ekki til aukins útflutnings í bráð er líklegt að krónan haldi áfram að gefa eftir, en bent hefur verið á að leiðin út úr vandanum er aukin fjárfesting hér á landi í greinum sem skapa eða spara gjaldeyri.

Frá áramótum hefur krónan veikst um 5,72%. Mest er veikingin gagnvart svissneskum franka 11,65%, 7,29% gagnvart norskri krónu og 6,93% gagnvart evru. Af helstu gjaldmiðlum er veikingin minnst gagnvart bandaríkjadal, 1,07%, að því er segir í Markaðsfréttunum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×