Viðskipti innlent

Lindex opnar á Íslandi

Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir og Albert Þór Magnússon, hér ásamt sonum sínum Daníel Viktori og Magnúsi Val, ætla að koma með tískufatnað á hagkvæmu verði til Íslands frá Svíþjóð. Mynd/GVA
Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir og Albert Þór Magnússon, hér ásamt sonum sínum Daníel Viktori og Magnúsi Val, ætla að koma með tískufatnað á hagkvæmu verði til Íslands frá Svíþjóð. Mynd/GVA
„Við erum ekki þekkt fyrir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur," segir Albert Þór Magnússon, en hann hyggst færa Íslendingum sænsku verslanakeðjuna Lindex ásamt konu sinni, Lóu Dagbjörtu Kristjánsdóttur. Verslunin verður opnuð í 450 fermetra plássi í Smáralindinni í nóvember.

„Það er mikið spennufall að geta loksins sagt frá þessu en við byrjuðum að vinna í þessu í ágúst í fyrra. Þetta er því búið að taka sinn tíma en fulltrúar Lindex voru strax áhugasamir um að koma sér inn á íslenska markaðinn," segir Lóa, en þau Albert eru nýflutt til landsins frá Halmstad í Svíþjóð þar sem þau voru í námi.

Lóa rak vefverslun á netinu á meðan hún bjó úti en þar verslaði hún meðal annars í Lindex fyrir kaupþyrsta Íslendinga. „Þá uppgötvaði ég hvað verslunin er vinsæl á Íslandi. Það varð í rauninni kveikjan að því að við ákváðum að hafa samband og athuga með opnun útibús hér."

Lindex er ein stærsta verslanakeðja Svía, með 430 verslanir í 14 löndum, og er gjarna talin einn helsti keppinautur tískurisans Hennes & Mauritz. Verslunin býður upp á föt fyrir konur, börn og unglinga á góðu verði og verður því kærkomin viðbót við verslanaflóru landsins.

„Um leið og við fengum jákvæð svör frá þeim fórum við að leita að hentugu húsnæði. Fulltrúar frá fyrirtækinu komu síðan hingað til lands í vor og þeim leist best á Smáralindina," segir Lóa, en þau hjónin eru menntaðir viðskiptafræðingar og spennt að takast á við þetta viðamikla verkefni.

„Núna erum við að fara í nokkurra vikna þjálfunarbúðir hjá Lindex í Noregi til að kynnast betur hugmyndum fyrirtækisins og versla inn haustlínurnar," segir Lóa og lofar að Lindex á Íslandi verði með svipað vöruúrval og búðirnar úti.

Lágt vöruverð er einn helsti kostur Lindex en mun það sama vera upp á teningnum í væntanlegri verslun á Íslandi? „Einkunnarorð fyrirtækisins er „Inspiring affordable fashion" eða að hvetja til tísku á hagkvæmu verði, svo að sjálfsögðu munum við fylgja því," segir Albert Þór en nánari upplýsingar um verslunina er hægt að nálgast á Facebook síðunni Lindex á Íslandi. alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×