Innlent

Listaháskólinn mun leigja hjá Samson

Listaháskóli Íslands og Samson Properties ehf. undirrituðu nú fyrir stundu samning um nýtt húsnæði fyrir Listaháskóla Íslands við Laugaveg. Miðað er við að skólinn taki þar til starfa haustið 2011. Byggingin verður rúmir 13 þúsund fermetrar að stærð en um 400 nemendur stunda nú nám við skólann. Lóðin undir skólann verður í eigu Listaháskólans en Samson Properties mun eiga skólabygginguna og leigja hana til skólans.

Skólabyggingin verður um 13.500 m² að stærð og hýsir starfsemi allra deilda skólans. Einnig verður þar sameiginlegt list- og þjónusturými, þar með talið tónlistarsalur, leikhús, sýningarsalir, fyrirlestrarsalir, bókasafn, veitingasala og verkstæði. Gert er ráð fyrir stækkunarmöguleikum á skólahúsnæðinu á aðliggjandi lóðum norðan Hverfisgötu sem og í húsi Regnbogans.

Liður í samkomulagi Listaháskólans og Samson Properties eru makaskipti á lóðum. Listaháskólinn lætur Samson Properties fá lóð í Vatnsmýrinni sem skólinn fékk úthlutað frá Reykjavíkurborg þann 7. maí síðastliðinn og fær miðborgarlóðina á móti.

Samson Properties og Listaháskólinn munu standa saman að hönnunarsamkeppni sem bæði tekur til deiliskipulags fyrir miðborgarlóðina og hönnunar byggingarinnar. Hönnunarsamkeppnin fer fram í tveimur þrepum. Hið fyrra verður almennt forval sem er öllum opið.

Valið verður úr tillögum sem þar koma fram í lokaða samkeppni sem er síðara þrep keppninnar. Markmiðið er að velja bestu tillöguna sem mun fela í sér fullmótaða deiliskipulagstillögu fyrir miðborgarlóðina, hönnunargögn fyrir bygginguna sem og gögn vegna útboðs á verkframkvæmdinni. Samkeppnin mun fara fram á grundvelli samkeppnisreglna Arkitektafélags Íslands




Fleiri fréttir

Sjá meira


×