Fótbolti

Lítil eftirspurn eftir króatísku landsliðstreyjunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá æfingu íslenska landsliðsins í gær.
Frá æfingu íslenska landsliðsins í gær. Mynd/Vilhelm
„Við fáum fyrirspurnir frá öllum hlutum heimsins og höfum sent treyjuna um víða veröld,“ segir Valdimar Magnússon hjá íþróttavöruversluninni Jóa Útherja.

Strákarnir í Reykjavík Síðdegis heyrðu hljóðið í Valdimar í dag og spurðu út í sölu á íslensku landsliðstreyjunni. Valdimar segir sölu á treyjum líklega hafa aukist upp á síðkastið. Íslenskum treyjum það er, ekki króatískum.

„Ég man ekki eftir því að nokkur hafi komið og spurt um króatíska treyjuna,“ segir Valdimar sem selt hefur íslensku treyjuna og sent langt út í heim. Brasilía, Mexíkó, Nýja-Sjáland og Ástralía eru meðal áfangastaða prentaðra treyja úr búðinni.

„Ég man sérstaklega eftir einum í Ástralíu sem hreinlega var að kaupa treyjuna vegna þess að hann var að fylgjast með riðlinum okkar og hélt með Íslandi,“ segir Valdimar.

Aðspurður um hvaða nöfn sé vinsælast að setja aftan á búningana er Gylfi Þór Sigurðsson fyrst nefndur til sögunnar. Þá sé Eiður Smári Guðjohnsen alltaf vinsæll.

„Guðjohnsen er náttúrulega merking sem við höfum gert mikið af. En þeir eru allir vinsælir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×