Viðskipti innlent

Lítil rök fyrir Íbúðalánasjóði

„Það eru lítil rök fyrir því að reka Íbúðalánasjóð ef hann getur ekki mætt fólki í vanda með sama hætti og fyrirtæki á markaði," segir efnahags- og viðskiptaráðherra. Engin áform eru samt uppi um að sjóðurinn veiti sömu úrræði vegna fasteignalána og Landsbankinn þótt báðir séu í eigu ríkisins.

Landsbankinn ætlar að víkka út gildandi reglur um niðurfærslu fasteignalána. Bankinn hyggst lækka veðskuldir sem hvíla á íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga umfram 110% af fasteignamati, en þessi úrræði voru kynnt í gær.

Þetta er ólíkt því sem gildir hjá Íbúðalánasjóði, sem einnig er í eigu ríkisins, en þar er miðað við markaðsverðmæti fasteignar, sem er yfirleitt umtalsvert hærra en matsverð. Þá ætlar Landsbankinn að endurgreiða 20% af öllum vöxtum sem greiddir voru á tímabilinu 31. desember 2008 til 30. apríl 2011 og undir þetta falla m.a. fasteignalán. Landsbankinn er því að ganga töluvert lengra en Íbúðalánasjóður og hinir viðskiptabankarnir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var spurð í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi hvort sama yrði uppi á teningnum hjá Íbúðalánasjóði. „Varðandi Íbúðalánasjóð þá stendur hann ekki vel. Hann fór eins langt og hann gat þegar við fórum í þessa 110% leið sem ég held að sé að skila mörgum mjög miklu. Ég held að það sé tæpast á hann leggjandi að fara lengra í því máli," segir Jóhanna.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, fagnar áformum Landsbankans en kallar eftir svipuðum úrræðum frá Íbúðalánasjóði.

„Það er auðvitað bara gott að fjármálastofnanir gangi fram og nýti það svigrúm sem þær telja sig hafa til þess að mæta fólki í skuldavanda. Það er síðan sjálfstætt úrlausnarefni hvernig tekið verður á málefnum Íbúðalánasjóðs. Hann verður auðvitað að geta starfað með sama hætti. Það eru lítil rök fyrir að hafa ríkisrekinn íbúðalánasjóð ef hann getur ekki staðið undir því að mæta fólki í vanda með sambærilegum hætti og fyrirtæki á markaði," segir Árni Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×