„Ísland og Finnland hafa algera sérstöðu þegar kemur að jöfnuði í skólakerfinu,“ segir Óskar Níelsson, sérfræðingur hjá Námsmatsstofnun.
Hann segir að þetta sé eitt af því sem komi mjög skýrt fram í PISA-könnuninni sem birt var í desember.
„Það eru nánast engin tengsl á milli læsis og þjóðfélagsstöðu nemenda,“ segir hann.
Í PISA-könnuninni kemur meðal annars fram að hér á landi ríkir mikill jöfnuður í tækifærum grunnskólanemenda til menntunar nánast óháð þjóðfélagsstöðu foreldra.
Þegar litið er á allt landið skýrir þjóðfélagsstaða heimilis 7,7 prósent af breytileika í læsi nemenda á stærðfræði, 6,3 prósent af breytileika í lesskilningi og 7,5 prósent af breytileika í læsi á náttúrufræði.
Tengsl milli þjóðfélagsstöðu og læsis sé helst að finna í skólum á höfuðborgarsvæðinu en þau tengsl séu mjög lítil í alþjóðlegu samhengi.
Mæling OECD á þjóðfélagsstöðu samanstendur af þremur þáttum, virðingarstöðu starfs foreldra, menntunarstigi foreldra og efnahag þeirra.
Í PISA-könnuninni voru nemendur spurðir um störf foreldra sinna og eðli starfanna og það skoðað í tengslum við frammistöðu þeirra á prófinu.
Í Hollandi, Ungverjalandi, Belgíu og Tyrklandi er mikill munur á skólum en lítill munur á getu nemenda innan skóla. „Frammistaða nemendanna í þessum löndum skýrist frekar af þjóðfélagsstöðu foreldranna en öðrum þáttum,“ segir Óskar og bendir á að þessu sé þveröfugt farið í Finnlandi og á Íslandi.
Þar sé lítill munur á milli skóla en mikill munur á getu nemenda innan hvers skóla. Þjóðfélagsstaða foreldranna í þessum löndum hafi lítið að segja um frammistöðu nemendanna í PISA-könnuninni.
Fyrir OECD-ríkin í heild skýrir þjóðfélagsstaða foreldra 14,6 prósent af breytileika í læsi nemenda á stærðfræði og hvergi innan OECD er hlutfallið lægra en á Íslandi, eða 8,8 prósent. „Mitt persónulega mat er því að við séum að standa okkur einna best í heiminum hvað varðar jöfnuð til náms,“ segir Óskar.
Innlent