Enski boltinn

Liverpool gerði jafntefli í fyrsta leik undir stjórn Rodgers

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Byrjunarlið Liverpool í leiknum í kvöld.
Byrjunarlið Liverpool í leiknum í kvöld. Nordicphotos/Getty
Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool gerði í kvöld 1-1 jafntefli við Toronto í æfingaleik í Kanada. Leikurinn var sá fyrsti sem félagið leikur undir stjórn Brendan Rodgers en fjölmarga lykilmenn vantaði í lið Liverpool.

Quincy Amarikwa kom heimamönnum yfir á 58. mínútu en hinn átján ára framherji Adam Morgan jafnaði metin fyrir gestina á 69. mínútu.

Steven Gerrard, Pepe Reina, Fabio Borini og aðrir landsliðsmenn Liverpool sem voru á Evrópumótinu í Póllandi og Úkraínu í sumar léku ekki með Liverpool. Sömu sögu er að segja um Craig Bellamy og Luis Suarez sem undirbúa sig nú með landsliðum sínum fyrir Ólympíuleikana í London.

Brasilíumaðurinn Lucas Leiva kom við sögu hjá Liverpool en miðjumaðurinn var frá nánast allt síðasta tímabil vegna krossbandsslits í hné. Alberto Aquilani byrjaði leikinn auk þess sem Joe Cole kom inná en hann var í láni hjá franska liðinu Lille á síðustu leiktíð.

Toronto er eitt þriggja liða með lélegastan árangur að loknum 20 umferðum í MLS-deildinni. Paul Mariner, fyrrum landsliðsmaður Englands, stýrir liðinu en hann tók við stjórn liðsins af Hollendingnum Aron Winter í síðasta mánuði.

Liverpool leikur næst gegn Roma á Fenway Park í Boston á miðvikudag. Liðið mætir svo Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Tottenham í Baltimore 28. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×