Enski boltinn

Liverpool hvatt til að áfrýja ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samtök sem berjast gegn kynþáttafordómum í evrópskri knattspyrnu hafa hvatt Liverpool til að áfrýja ekki átta leikja banninu sem Luis Suarez var dæmdur í af enska knattspyrnusambandinu.

Suarez var dæmdur fyrir að vera með kynþáttaníð í garð Patrice Evra, leikmann Manchester United. Eins og lesa má um hér fyrir neðan voru rannsóknargögn og rökstuðningur fyrir niðurstöðunni gerð opinber af enska knattspyrnusambandinu í gær.

„Við fögnum því að enska knattspyrnusambandið hafi birt dóm sinn," sagði Piara Powar, framkvæmdarstjóri samtakanna og lofaði hún sambandið fyrir vinnubrögð sín í málinu sem hún sagði vera til fyrirmyndar.

„Kynþáttaníð á milli leikmanna hefur verið umræðuefni sem enginn hefur viljað snerta á í allt of langan tíma. Á undanförnum áratug hefur verið of lítið tekið á þessum málum í enskri knattspyrnu þó svo að fjölmörg dæmi hafa komið upp."

„Luis Suarez og Liverpool er heimilt að áfrýja úrskurðinum og endurskoða afstöðu sína í þessum máli. Liverpool er félag sem á sér gott orðspor en sterkar yfirlýsingar þess í þessu máli er án nokkurs vafa til þess fallið koma óorði á félagið."

Leikmenn Liverpool sýndu Suarez stuðning sinn í verki á dögunum þegar þeir klæddust sérstökum Suarez-bolum þegar þeir hituðu upp fyrir leik liðsins gegn Wigan þann 21. desember síðastliðinn. Hefur það uppátæki verið nokkuð gagnrýnt í enskum fjölmiðlum síðan þá.


Tengdar fréttir

Evra: Suarez sagðist ekki tala við svertingja

Enska knattspyrnusambandið hefur opinberað rannsóknargögn sem leiddu til þess að Luis Suarez, leikmaður Liverpool, var dæmdur í átta leikja bann af sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×