Innlent

Lögfræðingar Snowdens líta til Íslands

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
„Það eru margir núna sem horfa með mikilli bjartsýni til Íslands,“ sagði lögfræðingur uppljóstrarans Edwards Snowden, hinn bandaríski Ben Wizner, á mánudag þegar Evrópuþingið tók mál uppljóstrarans fyrir. Alþjóðlegt lögfræðingateymi Snowdens flutti málið.

Lögfræðingarnir hafa ekki formlega óskað eftir hæli fyrir Snowden í Evrópu en hann hefur verið í Rússlandi síðan 2013. Teymið færði þau rök fyrir máli sínu að hann ætti að geta ferðast um Evrópu eins og hann væri með vegabréf þaðan. Wolfgang Kaleck, einn úr teyminu benti á að Snowden gæti fengið fangelsisdóm upp á þúsund ár yrði hann dæmdur fyrir brot sín.

„Evrópusambandinu ber skylda til að styðja við bakið á honum,“ sagði Kaleck en uppljóstranir Snowdens ollu hneykslun um allan heim. Rússnesk stjórnvöld ákváðu í síðustu viku að framlengja dvalarleyfi Snowdens í landinu um tvö ár. Hann ljóstraði upp um leynigögn frá bandarískum stofnunum. Fram kom í ræðum lögfræðingateymisins að það fylgdist vel með stjórnmálaástandi heimsins. Væri von bundin við Spán, Þýskaland og Ísland, með áherslu á Ísland, að veita Snowden hæli.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×