Innlent

Lögregla sökuð um að skilja mann tvívegis eftir í óbyggðum

Lögreglumenn á Selfossi. Myndin er úr safni.
Lögreglumenn á Selfossi. Myndin er úr safni.
Aðalmeðferð fer fram í dag í máli ríkissaksóknara gegn lögregluvarðstjóra á Selfossi sem hefur verið ákærður fyrir að fara offari í framkvæmd lögreglustarfans og ekki gætt lögmætra aðferða sem stjórnandi lögregluaðgerðar. Réttað er í Héraðsdómi Suðurlands.

Lögreglumaðurinn er ákærður fyrir að hafa fyrirskipað lögreglumönnum að aka með handtekinn pilt fæddan 1991, sem þá var undir áhrifum áfengis, frá mótssvæði í Galtalæk síðasta sumar, að Landsveit í Rangárþingi ytra, sem er í rúmlega fjögurra kílómetra fjarlægð, og skilja hann eftir í námunda við sumarbústað.

Pilturinn knúði dyra í sumarbústaðnum í leit eftir aðstoð sem varð til þess að þeir sem þar dvöldust kölluðu eftir aðstoð lögreglunnar, sem var nýbúin að skilja hann eftir í óbyggðum samkvæmt ákæruskjali.

Í öðrum tölulið ákærunnar kemur fram að lögreglan hefði þá mætt á vettvang og handtekið piltinn á ný. Þá var honum ekið frá fyrrnefndum sumarbústað áleiðis að Galtalæk. Nú var hann hinsvegar skilinn eftir á Landvegi, sem er um miðja vegu milli bústaðarins og Galtalækjar, samkvæmt ákæruskjali.

Í nóvember á síðasta ári var lögreglumaður í Reykjavík dæmdur í Hæstarétti fyrir brot í opinberu starfi með því að hafa í janúar 2009 farið offari við framkvæmd lögreglustarfans og ekki gætt lögmætra aðferða. Hann var hinsvegar sýknaður nokkrum mánuðum fyrr í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Sá lögreglumaður var þá stjórnandi lögregluaðgerðar og skipaði öðrum lögreglumanni að fara með pilt, sem hafði verið handtekinn vegna ölvunarláta í miðbæ Reykjavíkur, út á Granda þar sem hann var skilinn eftir.

Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að það sé mælt fyrir um að handtekinn maður sé færður á lögreglustöð eða annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu. Eigi þetta við ef honum sé ekki þegar sleppt.

Þeim lögreglumanni, sem heitir Garðar Helgi Magnússon, var aldrei vikið úr starfi á meðan málið fór sína leið í dómskerfinu. Þá er óvíst hvort honum verði vikið úr starfi úr þessu en hann starfar enn sem lögreglumaður.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að haldi Garðar skilorð í tvö ár skal refsing falla niður frá uppkvaðningu dómsins.


Tengdar fréttir

Varðstjóri ákærður fyrir að fara offari í starfi

Varðstjóri hjá lögreglunni á Selfossi hefur verið ákærður fyrir brot í starfi þegar hann lét handtaka ungan ölvaðan pilt og skilja hann eftir á víðavangi. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra er umræddur varðstjóri enn við störf. Pressan greinir frá því að varðstjórinn er ákærður fyrir að hafa farið offari í starfi sínu í júní á síðasta ári þegar hann fyrirskipaði öðrum lögreglumönnum að aka með ölvaðan pilt af mótssvæði í Galtalæk. Drengurinn hafði þá veriðhandtekinn. Lögreglumenn óku með drenginn um fjóra kílómetra í burtu frá Galtalæk og hann þar skilinn eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×