Innlent

Lögregla tók skýrslur af starfsfólki VIP Club

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður eigenda VIP Club.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður eigenda VIP Club. samsett mynd
„Ég get staðfest að lögregla kom í heimsókn á VIP Club í nótt og tók myndir á staðnum og tók skýrslur af starfsfólki,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður eigenda VIP Club. Hann segir engin merki hafa fundist um meint vændi eða mansal í tengslum við staðinn.

Staðurinn er svokallaður kampavínsklúbbur, og hefur ásamt Crystal í Ármúla verið til umfjöllunar undanfarna daga, en inni á stöðunum geta viðskiptavinir keypt kampavín og spjallað við stúlkur sem þar starfa.

„Það var allt í samræmi við lög og reglur þannig að nú treysti ég því að Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, dragi hin stóryrtu ummæli sín til baka og biðji umbjóðendur mína afsökunar.“

Vilhjálmur vísar þarna í orð sem Björk lét falla í fjölmiðlum um að svo virtist sem vændi og mansal væri stundað í tengslum við starfsemi umræddra staða. Eigendur þeirra stefndu Björk fyrir meiðyrði vegna þessara ummæla í gær og sams konar stefnu fékk Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, forstöðukona vændisathvarfsins, vegna ummæla á svipuðum nótum. Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi kvaðst Björk standa við ummæli sín.

„Þeir tóku skýrslur af starfsfólki, meðal annars þeim íslensku stúlkum sem þarna starfa og þeim ensku líka, þannig að þau ummæli borgarfulltrúans sem jaðra nú við kynþáttafordóma að mínu mati að starfsstúkurnar þarna tali eingöngu austur evrópsk mál, þau ummæli falla algjörlega um sjálf sig,“ segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×