Innlent

Lögreglan í úreldum skotvestum

Grunnbúnaður lögreglunnar hér á landi til þess að takast á við sérstakar lögregluaðgerðir er mjög takmarkaður. Meðal annars er nokkur hluti af varnarbúnaði lögreglu kominn til ára sinn og úreldur, sem dæmi má nefna að skotvesti lögreglunnar eru beinlínis útrunninn, en notkunartími þeirra var frá 1995 til 2005.

Þetta kemur fram í skýrslu sem var unnin eftir samráðsfund innanríkisráðuneytisins og ríkislögreglustjóra þann 6. október síðastliðinn. Í skýrslunni, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir meðal annars að ríkislögreglustjóri hafi skýrt frá því að hann hefði átt samráðsfundi með lögregluliðum úti á landi.

Á þeim fundum hefðu eindregið komið fram að nú um stundir væri lögreglunni ókleift að leysa þau verkefni sem ætlast væri til af henni vegna fjárskorts og manneklu.

Ástandið í lögreglunni væri óásættanlegt og brýnt væri að fjölga lögreglumönnum og auka fjárveitingar til lögreglunnar. Að mati ríkislögreglustjóra væri það staðreynd að lögreglan getur ekki sinnt þeim verkefnum sem hún þarf að gera lögum samkvæmt.

Þá er lögreglan ófær um að takast á við umfangsmikil verkefni s.s. viðbrögðum við hryðjuverkaógn, aðgerðum gegn skipulagðri glæpastarfsemi og síauknum þunga í landamæravörslu. Gera þurfi þriggja ára framkvæmdaáætlun um eflingu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×