Innlent

Lögreglan tók níutíu byssur af skotglöðum byssusafnara

Lögreglan á Selfossi lagði hald á um níutíu byssur og gríðarlegt magn skotfæra á heimili Páls Reynissonar, forstöðumanns og eiganda Veiðisafnsins á Stokkseyri, eftir að tilkynnt var um skothvelli frá húsinu aðfaranótt sunnudags. Maðurinn hélt á tveimur skammbyssum og stóð fyrir skothríð þegar lögreglu bar að garði.

Forstöðumaðurinn var látinn laus í gær eftir að Héraðsdómur Suðurlands hafði hafnað kröfu lögreglustjórans á Selfossi um gæsluvarðhaldsúrskurð.

Forstöðumaðurinn reyndist ölvaður við handtöku. Hann hafði þá í hótunum við lögreglumenn en beindi ekki skotvopnunum sem hann var með að þeim. Hann var handtekinn vopnlaus utandyra. Sérsveit ríkislögreglustjóra hafði þá verið kölluð til en var ekki komin á staðinn.

Lögreglan á Selfossi bað sérsveitina um aðstoð við að haldleggja og skrá skotvopnasafnið, en Veiðisafnið er í sama húsi og heimili mannsins. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom einnig á staðinn til að rannsaka hvað gengið hefði á. Loks fékk lögreglan á Selfossi aðstoð frá Landhelgisgæslunni, sem tók skotvopnasafnið til geymslu.

Maðurinn reyndist vera með skotvopnaleyfi fyrir fjöldamörgum byssum. Hann var þegar sviptur leyfunum til bráðabirgða.

Lögreglustjórinn á Selfossi lagði fram kröfu um gæsluvarðhald yfir manninum og að hann sætti geðrannsókn. Héraðsdómur hafnaði kröfunni í gær og var maðurinn þá látinn laus. Hann hefur kannast við að hafa hleypt af skotum við hús sitt.

Í dag setjast lögreglumenn á Selfossi á fund með lögfræðingum embættisins þar sem farið verður yfir málið og ákvörðun tekin um hvort úrskurður Héraðsdóms Suðurlands verður kærður til Hæstaréttar, að sögn Elísar Kjartanssonar lögreglufulltrúa á Selfossi.

- jss



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×