Innlent

Lögreglumaður skar sér hryggvöðva

Hreindýr Varðstjórinn aflífaði hreindýr sem var fast í girðingu við Reyðará í Lóni.
Hreindýr Varðstjórinn aflífaði hreindýr sem var fast í girðingu við Reyðará í Lóni. fréttablaðið/vilhelm
DÓMSMÁL Ríkissaksóknari hefur ákært varðstjóra í lögreglunni á Höfn í Hornafirði fyrir að misnota stöðu sína og verða sér með því úti um hryggjarvöðva úr hreindýri. Maðurinn neitaði sök við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Austurlands í fyrradag.

Varðstjóranum er gefið að sök brot í opinberu starfi. Í ákæru segir að hann hafi sunnudaginn 12. desember á síðasta ári komið því til leiðar á lögreglustöðinni á Höfn í Hornafirði, þegar hann var á frívakt, að hann sinnti sjálfur aflífun hreindýrs sem tilkynnt hafði verið um að væri fast í girðingu við Reyðará í Lóni. Þetta hafi varðstjórinn gert undir því yfirskini að hann væri að sinna verkefni lögreglu, en í þeim tilgangi að komast yfir kjöt af dýrinu til eigin nota.

Í ákærunni segir enn fremur að maðurinn hafi notfært sér í þessu skyni lögreglubifreið, skotvopn og annan búnað, sem og aðstöðu lögreglu, í eigin þágu til að fara á vettvang við Reyðará og aflífa dýrið, blóðga það, færa skrokkinn á afvikinn stað og skera úr hryggvöðva. Hafi hann síðan haldið með kjötið á heimili sitt.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hefur varðstjórinn verið í veikindaleyfi frá því að málið kom upp.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×